Atlantsorka skrifaði nýverið undir samning við Landsvirkjun og bætist því í hóp heildsölufyrirtækja í viðskiptum við okkur. Slík heildsölufyrirtæki eru nú orðin níu talsins. Við bjóðum Atlantsorku hjartanlega velkomna í hópinn.
Atlantsorka er nýtt fyrirtæki á raforkusölumarkaði sem selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um land allt. Atlantsorka er dótturfélag Atlantsolíu, og var meðal annars stofnað til að bjóða viðskiptavinum upp á fjölbreyttari orkugjafa í ljósi þróunar á samsetningu bílaflotans. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er sala rafmagns til heimila og fyrirtækja sem hófst fyrr í sumar. Markmið félagsins eru kunnugleg og í takt við gildi móðurskipsins, að bjóða ávallt hagstætt og samkeppnishæft verð til neytenda, lágmarks yfirbyggingu og einfaldleika í þjónustu – semsagt jákvæðari orku fyrir heimili og fyrirtæki í landinu.
Samkeppni á heildsölumarkaði með raforku heldur áfram að aukast og er hægt að sjá verðsamanburð milli fyrirtækja á vef Aurbjargar.