Áfram vel undir losunarþaki okkar á fyrri hluta árs

03.09.2024Umhverfi

Hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds Landsvirkjunar 2024 er komið út.

Losun eykst á milli ára vegna aukinnar jarðvarmavinnslu

Hálfsársuppgjör 2024 á PDF

Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar nam 3,1 grammi koldíoxíðígilda á hverja unna kílóvattstund á fyrri helmingi ársins og jókst um 23% á milli ára. Aukninguna má rekja til aukinnar jarðvarmavinnslu, en vegna bágrar stöðu miðlunarlóna vatnsaflsstöðva var vinnsla jarðvarma á tímabilinu meiri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar.

Losun fyrirtækisins er áfram undir losunarþakinu 4 gCO₂-íg/kWst sem skilgreint er í loftslags- og umhverfisstefnu okkar og með því minnsta sem þekkist innan orkugeirans. Evrópusambandið skilgreinir raforkuvinnslu með vatnsafli og jarðvarma sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef losun á hverja kílóvattstund er undir 100 grömmum.

Helstu niðurstöður hálfs árs loftslagsbókhalds 2024
Helstu niðurstöður hálfs árs loftslagsbókhalds 2024

Heildarlosun á fyrri hluta ársins nam um 21.400 tonnum CO₂-ígilda og jókst um 16% frá sama tímabili í fyrra. Kolefnisspor Landsvirkjunar, þ.e.a.s. losun að frádreginni kolefnisbindingu, var um 3.200 tonn CO₂-ígilda. Kolefnisspor á orkueiningu var 0,46 gCO₂-íg/kWst.

Faglega unnið og staðfest loftslagsbókhald

Sjá loftslagsbókhald síðustu ára

Við gefum árlega út loftslagsbókhald  þar sem við birtum tölulegar upplýsingar um losun vegna starfsemi fyrirtækisins. Það er unnið út frá aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHGP), alþjóðlegum fyrirtækjastaðli fyrir upplýsingagjöf um losun gróðurhúsalofttegunda.

Endurskoðunarfyrirtækið Bureau Veritas hefur rýnt og staðfest loftslagsbókhaldið okkar frá árinu 2018. Þannig tryggjum við að niðurstöður okkar séu í samræmi við þá losun sem starfsemi fyrirtækisins veldur.