Losun eykst á milli ára vegna aukinnar jarðvarmavinnslu
Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar nam 3,1 grammi koldíoxíðígilda á hverja unna kílóvattstund á fyrri helmingi ársins og jókst um 23% á milli ára. Aukninguna má rekja til aukinnar jarðvarmavinnslu, en vegna bágrar stöðu miðlunarlóna vatnsaflsstöðva var vinnsla jarðvarma á tímabilinu meiri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar.
Losun fyrirtækisins er áfram undir losunarþakinu 4 gCO₂-íg/kWst sem skilgreint er í loftslags- og umhverfisstefnu okkar og með því minnsta sem þekkist innan orkugeirans. Evrópusambandið skilgreinir raforkuvinnslu með vatnsafli og jarðvarma sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef losun á hverja kílóvattstund er undir 100 grömmum.
Heildarlosun á fyrri hluta ársins nam um 21.400 tonnum CO₂-ígilda og jókst um 16% frá sama tímabili í fyrra. Kolefnisspor Landsvirkjunar, þ.e.a.s. losun að frádreginni kolefnisbindingu, var um 3.200 tonn CO₂-ígilda. Kolefnisspor á orkueiningu var 0,46 gCO₂-íg/kWst.