Frárennslisskurður tengir Sigöldu við Hrauneyjafossstöð
Sigöldustöð var byggð í kjölfar fyrstu aflstöðvar Landsvirkjunar, Búrfellsstöðvar. Þegar hún var í byggingu var unnið í kapp við tímann því mikil þörf var orðin á fleiri vatnsaflsvirkjunum til að anna orkuþörf í landinu í kjölfar stóriðjuframkvæmda í Straumsvík og Hvalfirði.
Sigöldustöð er rétt ofan við Hrauneyjafossstöð, sunnan við Þórisvatn. Uppsett afl stöðvarinnar er 150 megavött og getur hún unnið 930 gígavattstundir á ári. Stöðin var gangsett í lok árs 1978. Frárennslisskurður tengir Sigöldu við Hrauneyjafossstöð.
Tungnaá er stífluð með Sigöldustíflu efst í gljúfrinu ofan við Sigöldu til að mynda Krókslón, 14 km2 miðlunarlón. Stíflan er nærri kílómetra löng og er hæst 40 metrar. Úr Krókslóni er vatni veitt eftir kílómetra löngum aðrennslisskurði yfir ölduna að inntaki á vesturbrún Sigöldu. Þaðan liggja þrjár þrýstivatnspípur að stöðvarhúsinu, sem er að hluta grafið inn í hlíð Sigöldu. Nýtileg fallhæð er 74 metrar. Frá stöðvarhúsinu liggur 550 metra langur frárennslisskurður út í Hrauneyjalón.