Á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár eru sjö vatnsaflsstöðvar Búðarhálsstöð, Búrfellsstöð, Búrfellsstöð II, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð, Sultartangastöð og Vatnsfellsstöð. Þar er einnig vindmyllusvæði sem kallast Hafið. Samanlagt afl vatnsaflsstöðvanna er 1040 megavött. Vatni til miðlunar er safnað í uppistöðulónin Þórisvatn, Hágöngulón og Kvíslaveitu. Að auki eru minni miðlunarmannvirki við hverja stöð á svæðinu, svo sem Krókslón, Sultartangalón, Bjarnalón, Hrauneyjalón og Vatnsfellslón.
Þórisvatn er stærsta stöðuvatn landsins, langstærsta miðlunin og mikilvægur hlekkur í veitukerfi Landsvirkjunar. Um Þórisvatn rennur allt vatn sem safnast saman í Kvíslarveitu og Hágöngumiðlun.
Þórisvatnsmiðlun var byggð á árunum 1970-1972 í tengslum við virkjun Þjórsár við Búrfell. Áin Kaldakvísl var stífluð við Sauðafell og veitt um skurð inn í norðanvert Þórisvatn. Við útfall Þórisvatns norðanmegin er Þórisóssstífla sem veitir Köldukvísl inn í vatnið.
Nýju útrennsli Þórisvatns var valinn staður við suðurenda vatnsins meðfram vesturhlíð Vatnsfells. Þar var grafinn veituskurður úr vatninu og steinsteypt lokuvirki byggt í skurðinum til að stjórna rennsli. Veitan er nefnd Vatnsfellsveita og um hana fer vatn úr Þórisvatni í gegnum Vatnsfellsvirkjun í Krókslón ofan Sigöldustöðvar og þaðan til annarra stöðva neðar á vatnasviðinu.
Framkvæmdir við Kvíslaveitu hófust 1980 og var skipt í fimm áfanga sem lauk árið 1997. Kvíslaveita er samheiti á stíflum, skurðum, botnrásum og lokuvirkjum sem stjórna rennsli úr þverám og efsta hluta Þjórsár í Þórisvatnsmiðlun. Lónin í Kvíslaveitu eru fimm talsins, samtals um 28 km2 að stærð.
Hágöngumiðlun var byggð 1997-1999 og er 37 km2 að stærð. Tilgangur hennar er að auka miðlun á vatnasviði Köldukvíslar. Á sumrin er vatni safnað í Hágöngulón og vegna þess rennur afar lítið vatn um Köldukvíslarfarveg að sumarlagi.