Fljótsdalsstöð

2007Vatnsaflsstöð

Fljótsdalsstöð var gangsett 30. nóvember 2007 og er staðsett neðanjarðar, inni í Valþjófsstaðarfjalli.

Stærsta aflstöð landsins

Fljótsdalsstöð er stærsta aflstöðin okkar, en hún er 690 megavött að uppsettu afli og getur unnið 5.150 gígavattstundir af rafmagni á ári. Stöðvarhús Fljótsdalsstöðvar er staðsett neðanjarðar, inni í Valþjófsstaðafjalli og er aðkoma að því um sérstök 1000 metra löng aðkomugöng.

Frá miðlunarlóni stöðvarinnar, Hálslóni, rennur vatnið um tæplega 40 kílómetra aðrennslisgöng að stöðinni, en samanlögð fallhæð vatnsins er rúmlega 600 metrar. Tveir þriðju hlutar þeirrar fallhæðar eru í 420 metra háum og nánast lóðréttum fallgöngum við stöðina.

Í stöðvarhúsinu knýr vatnið sex öfluga hverfla og rennur svo um frárennslisgöng og skurð út í Jökulsá í Fljótsdal, austur undan Valþjófsstað, í 26 metra hæð yfir sjávarmáli.

Fljótsdalsstöð

Stærsta aflstöðin okkar

Helstu stærðir

  • Uppsett afl

    0MW
  • Francis hverflar

    0MW
  • Orkuvinnslugeta

    0GWh /ár
  • Heildarfallhæð

    0m
  • Hámarksrennsli

    0m3/sek
  • Vistferilslosun

    0g CO₂-ígilda/kWst

Vatnasvið Fljótsdalsstöðvar

Vatnasvið Fljótsdalsstöðvar er afar víðfeðmt, eða um 2.236 km2 og lón stöðvarinnar eru mynduð með fimm stíflugörðum sem eru yfir fimm kílómetrar að lengd. Vatnið er leitt að hverflum Fljótsdalsstöðvar frá lónum á hálendinu norðan Vatnajökuls um jarðgöng sem eru samanlagt rúmlega 72 km eða sem svarar til tæplega 12 Hvalfjarðarganga.

Kárahnjúkastífla, efst í Hafrahvammagljúfrum (Dimmugljúfrum), er hæsta grjótstífla í Evrópu með steyptri þéttikápu og meðal þeirra stærstu í heiminum af þessari gerð. Hún stíflar Jökulsá á Brú við Fremri Kárahnjúk og er langstærsta stíflan á svæðinu. Grjótið í stífluna var að mestu tekið úr námum innan lónsins skammt ofan við stífluna og lagt út í þjöppuðum lögum. Á byggingartíma var ánni veitt um hjáveitugöng undir stífluna á vesturbakkanum.

Austan við Kárahnjúkastíflu er minni stífla, Desjarárstífla, í drögum undir Fremri Kárahnjúki og í dalverpi að vestanverðu er Sauðárdalsstífla. Saman mynda þessar stíflur Hálslón sem er um 63 km2 að stærð og nær inn að Brúarjökli. Hálslón stækkaði frá 57 km2 við upphaf framkvæmda sem skýrist að mestu af hopun Brúarjökuls um 4,5 km frá árinu 2000. En mælingin er gerð við 80 cm yfirfall.

Hálslón fyllist síðsumars. Þá er vatni veitt um yfirfall við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist það í 90–100 m háum fossi, Hverfanda, niður í Hafrahvammagljúfur. Það er til marks um gríðarlegt afl fossins að hann getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.

Austan Snæfells eru tvö lón, annars vegar Ufsarlón sem nýtir vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og hins vegar Kelduárlón sem nýtir vatn úr Kelduá og Grjótá. Vatnið úr Hálslóni er leitt um jarðgöng austur um Fljótsdalsheiði þar sem það mætir vatni í öðrum jarðgöngum frá Ufsarlóni. Þaðan rennur vatnið í einum göngum norðaustur að inntaki efst í Valþjófsstaðafjalli. Aðrennslisgöngin liggja á um 100-200 m dýpi undir heiðinni. Frá inntakinu liggja tvenn fallgöng að stöðvarhúsi Fljótsdalsstöðvar sem er neðanjarðar um einn kílómetra inni í fjallinu.

Sjálfbærniúttekt árið 2017

Við höfum notað alþjóðlegan matslykil um sjálfbærni vatnsorkuvinnslu - Hydropower Sustainability Assessment Protocol (HSAP) - til að efla enn frekar sjálfbæra auðlindanýtingu fyrirtækisins. Alþjóðlegt teymi úttektaraðila tók út rekstur Fljótsdalsstöðvar haustið 2017.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Fljótsdalsstöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur, fékk 5 í einkunn af 5 mögulegum í 11 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar.

Í fjórum flokkum uppfyllti stöðin kröfur um góðar starfsvenjur, fékk 4 í einkunn af 5 mögulegum og í hverjum þeirra var aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Sjálfbærnimat á rekstri Fljótsdalsstöðva