Ljósafossstöð

1937Vatnsaflsstöð

Ljósafossstöð var gangsett 1937 og er staðsett við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns.

Með tilkomu Ljósafossstöðvar gat fólk skipt yfir í rafmagnseldavélar

Rekstur Ljósafossstöðvar hófst árið 1937. Þá voru settar upp tvær vélasamstæður, samtals með 8,8 megavatta afli. Þriðja vélin bættist við árið 1944 og er hún 5,8 megavött. Uppsett afl stöðvarinnar er því 14,6 megavött og raforkuframleiðslan er 105 gígavattstundir á ári.

Við gangsetningu stöðvarinnar var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Möguleiki skapaðist á að nota rafmagnseldavélar í stað kolavéla en rafmagnið í Reykjavík frá Elliðaánum og fyrir tíma Ljósafossstöðvar var einkum notað til lýsingar. Til þess að auka nýtingu á raforku frá Ljósafossstöð gátu heimilin fengið eldavél frá Rafha í áskrift með rafmagninu.

Eins og nafnið gefur til kynna stendur stöðin við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns. Stöðin stendur á árbakkanum austan við fossinn, vatnið er leitt um pípur að hverflum stöðvarinnar og þaðan út í ána neðan við fossinn.

Helstu stærðir

  • Uppsett afl

    0MW
  • Francis hverflar

    0×

    2 x 4,4 & 1 x 5,8 MW

  • Orkuvinnslugeta

    0GWh /ár
  • Heildarfallhæð

    0m

Elsta virkjun landsins

Ljósafossstöð

Endurnýjanleg orka í 80 ár

Tímamót

Framkvæmdir við virkjun Ljósafoss stóðu frá 1935 til 1937. Mörg handtök þurfti við byggingu aflstöðvarinnar, enda var þetta stærsta verkefni af þessum toga sem ráðist hafði verið í. Við bakka Sogsins var reist 250 manna þorp sem hýsti þá sem störfuðu við þessar miklu framkvæmdir. Kristján 10. Danakonungur og konungur Íslands til 1944 lagði hornstein að stöðvarhúsinu. Virkjun Ljósafoss var tímamótaframkvæmd sem gaf iðnaði kost á að nýta stórvirkar vélar knúnar rafmagni og flýtti þannig mjög fyrir uppbyggingu hans.

Stórviðri á þjóðhátíðardag

Ljósafoss virkjar ána Sogið sem rennur úr Þingvallavatni, líkt og Írafossstöð (1953) og Steingrímsstöð (1959). Aðfaranótt 17. júní 1959 skall á stórviðri og varnargarðurinn hjá Steingrímsstöð sem var í byggingu brast. Vatn beljaði í stríðum straumi inn um göng stöðvarhússins og út í Úlfljótsvatn, reif niður mótauppslátt og sópaði öllu burt sem varð á vegi þess. Þetta var eitthvert mesta tjón sem hafði orðið í mannvirkjagerð hér á landi. Það tók heila 5 sólarhringa að loka skarðinu og hefja framkvændir við uppbyggingu á ný.

Stuðningur við nærsamfélag

  • Samstarf við skáta

    Við leggjum mikla áherslu á að orkufyrirtæki þjóðarinnar sé góður granni. Þess vegna höfum við og Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn, nágrannar okkar í Soginu, gert samkomulag um að Landsvirkjun leggi til ýmsa aðstöðu og aðgang að orkusýningunni í Ljósafossstöð. Skátarnir skipuleggja fræðslu um orkumál fyrir íslenska nemendur og erlenda skáta, og bjóða ýmis tækifæri til útivistar í samstarfi við Landsvirkjun.

  • Ungmenni í sumarstörf

    Á hverju ári eru ráðin ungmenni í sumarstörf við aflstöðvar Landsvirkjunar. Á Sogssvæðinu starfar rúmur tugur ungmenna á aldrinum 16-20 ára, auk verkstjóra. Við erum sérstaklega ánægð með að geta skapað sumarstörf fyrir ungmenni úr nærsamfélagi aflstöðvanna okkar. Þau sinna mikilvægum störfum við umsjón starfssvæðisins og öðrum tilfallandi umhverfistengdum verkefnum.

Landsvirkjun og skátar hafa verið með farsælt samstarf síðastliðin ár.