Um orkunýtni
Íslendingar brenna meira en milljón lítrum af olíu og bensíni á ári og greiða fyrir það 100-150 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Við erum flest sammála um að vilja koma þessari tölu niður í núll sem allra fyrst. Samt ætlum við ekki að hætta að keyra, sigla og fljúga – þótt það sé sjálfsagt að reyna að draga úr orkunotkun eins og kostur er og nýta orkuna sem best.
Á COP28, síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, skrifaði Ísland undir yfirlýsingu sem fór ekki mjög hátt. Þar er Ísland í hópi 118 ríkja sem styðja þreföldun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu og tvöföldun á hraða aðgerða til bættrar orkunýtni.
Í nóvember síðastliðnum var reyndar kynnt skýrsla um tækifæri til bættrar orkunýtni hérlendis. Hana vann danska ráðgjafafyrirtækið Implement fyrir Orkustofnun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Landsvirkjun. Lengi hefur verið lögð mikil áhersla á orkunýtni á meginlandi Evrópu og þar er töluvert til af gögnum og rannsóknum þar að lútandi. Hér þurfti hins vegar að byrja á núllpunkti, því litlar sem engar upplýsingar var að hafa. Mögulega er það vegna þess að Íslendingar hafa talið orkuauðlindir sínar svo ríkulegar að það þurfi ekki að huga að orkusparnaði. En hver sem skýringin er var ráðist í verkið og má finna hlekk á afraksturinn í heimildaskrá.
Niðurstaðan var sú að á næstu fimm árum mætti spara allt að 360 gígawattstundir með bættri orkunýtingu. Íslenskt samfélag notaði tæplega 20.000 GWst í fyrra.