Hágæðalax í lokuðu fiskeldiskerfi
GeoSalmo áformar að byggja upp landeldi á umhverfisvænum hágæðalaxi í lokuðu fiskeldiskerfi á landi vestan Þorlákshafnar. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 24 þúsund tonna eldi þegar stöðin verður komin í fullan rekstur, en fyrsti áfangi nemur um 7.300 tonnum.
Fyrirtækið ætlar sér að verða leiðandi aðili í þróun fiskeldis á landi á Íslandi og framleiða hágæðavöru til sölu á innlendum og erlendum mörkuðum. Lögð verður áhersla á að starfsemi þess sé í góðri sátt við umhverfi og samfélag.
GeoSalmo er langt komið með undirbúning að framkvæmdum. Fyrirtækið hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu og er umsagnarfrestur fyrir hana nýliðinn. Niðurstaða í leyfismálum mun liggja fyrir á næstu vikum og mánuðum. Allt eru þetta mikilvægir liðir í að framkvæmdir geti hafist. Þá hefur GeoSalmo samið við norska fyrirtækið Artec-Aqua um hönnun og verkumsjón fyrir verkefnið en það fyrirtæki hefur byggt fiskeldisstöðvar á landi í Noregi með góðum árangri.
Stöðin verður búin fullkomnasta búnaði sem völ er á til stýringar hitastigs og vatnsgæða. Öll ker verða lokuð og tryggir það mikinn stöðugleika og gæði í framleiðslunni.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Eftirspurn eftir grænu orkunni okkar er miklu meiri en við náum að sinna og við höfum þurft að segja nei við mörgum góðum verkefnum. Við forgangsröðum orkusölunni, m.a. í þágu aukinnar almennrar notkunar, orkuskipta og nýsköpunar. Fyrirætlanir GeoSalmo um landeldi, með áherslu á sjálfbærni og umhverfisvænan rekstur, falla mjög vel að þessari forgangsröðun okkar“.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri GeoSalmo:
„Ég er mjög ánægður með þennan áfanga sem leggur grunn að orkusamningi við Landsvirkjun. Vinnu við undirbúning miðar vel, en núna erum við að stíga lokaskrefin í nauðsynlegum leyfisumsóknum, samningagerð, fjármögnun og öðrum undirbúningi. Það er mikill styrkur fyrir verkefnið að Landsvirkjun sé tilbúin að taka þetta skref með okkur. Við erum bjartsýn á framtíðina og leggjum áherslu á að starfsemi fyrirtækisins verði í góðri sátt við umhverfi og samfélag auk þess að framleiða hágæðavöru fyrir okkar viðskiptavini“.