Fyrirtækin sameina áfram krafta sína fyrir gagnaverslausnir knúnar gnótt grænnar orku og verðöryggi
Landsvirkjun og Verne Global hf. tilkynntu í dag undirritun nýs raforkusamnings. Um er að ræða grænan raforkusamning sem gildir til 2030, en í honum er samið um upprunaábyrgðir til staðfestingar á því að öll raforka sem seld er til gagnavers Verne Global á Íslandi er einungis framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Verne Global hefur átt viðskipti við Landsvirkjun frá 2009 og var fyrsta alþjóðlega gagnaverið sem komið var á fót á Íslandi. Starfsemin, sem losar engan útblástur, er sérhönnuð fyrir gervigreind og stórvirka gagnavinnslu, um leið og viðskiptavinum er boðið upp á alhliða stuðning meðan á vinnsluferlinu stendur til þess að hámarka afköst og sveigjanleika.
Með samstarfi við Landsvirkjun getur Verne Global boðið viðskiptavinum sínum umtalsvert kostnaðarhagræði með aðgengi að gnótt endurnýjanlegrar vatns- og jarðhitaorku sem Ísland hefur upp á að bjóða um leið og dregið er úr kolefnislosun. Þess má geta að bílaframleiðendurnir BMW og Volkswagen vinna með Verne Global og nýta sér umfangsmikla vinnslugetu gagnaversins til þess að bæta hönnun bíla sem þeir framleiða, stytta hönnunartímann og stuðla að bestun í bílaumferð án þess að skaða umhverfið. Meðal annarra viðskiptavina Verne Global eru fjármálastofnanir, rannsóknarfyrirtæki á sviði líftækni og sérfræðingar í gervigreind.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Gagnaversiðnaðurinn á Íslandi eflist stöðugt og er sá orkufreki iðnaður sem vex hvað hraðast á heimsvísu. Eftirspurn eftir stórvirkri tölvuvinnslu fer vaxandi og sú sérstaða landsins að geta boðið upp á áreiðanlega græna orku á samkeppnishæfum kjörum og hentugt veðurfar gera Ísland að svalasta staðnum fyrir gagnaver. Það er okkur sönn ánægja að sjá áframhaldandi vöxt Verne Global og styðja við framtíðaráætlanir fyrirtækisins.“
Dominic Ward, forstjóri Verne Global:
„Á Íslandi fundum við ákjósanlegt svæði fyrir stórvirka tölvuvinnslu knúna af stórkostlegri orku sem skaðar ekki umhverfið. Landsvirkjun hefur leikið lykilhlutverk í því að gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar einstakt forskot í samkeppninni, eins og lágt orkuverð og verðöryggi. Raforkuverð í flestum öðrum löndum sveiflast eftir aðstæðum á markaði, en í gegnum samstarf okkar við Landsvirkjun á Íslandi getum við boðið viðskiptavinum okkar þann stöðugleika sem fylgir því að vita fyrirfram hver orkukostnaður gagnaversins verður og að orkan er fullkomlega endurnýjanleg.“