Landsvirkjun hefur fengið vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins og því til staðfestingar hefur fyrirtækið fengið endurnýjun á skírteini til næstu þriggja ára frá British Standard Institution. Enn fremur hefur PwC greint launagögn og staðfestir að launamunur kynja er vel innan viðmiða fyrir veitingu gullmerkis jafnlaunaúttektar. Munur á grunnlaunum mældist 0,8% körlum í vil en þegar horft er á heildarlaun er munurinn 1,2%. Þetta er í sjöunda skipti sem Landsvirkjun nær þessum árangri.
Rekstur jafnlaunakerfisins er í föstum skorðum og við erum sífellt að styrkja og þróa verklag í kringum kerfið. Við erum ákaflega stolt af þessum árangri sem náðst hefur.
Jafnlaunakerfið stuðlar að því að starfsmenn njóti jafnra launa fyrir jafnverðmæt störf. Starfsumhverfi og hlutverk Landsvirkjunar krefst fjölbreyttra starfa og er bakgrunnur starfsfólks mismunandi hvað varðar menntun, hæfni og reynslu. Jafnlaunakerfi fyrirtækisins endurspeglar þessa fjölbreytni og styður við fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun hvað varðar kjör starfsfólks.