Ávinningur nærsamfélagsins af starfsemi okkar er margvíslegur og ekki bara talinn í krónum og aurum. Við höfum frá upphafi lagt samtals 646 km af vegum og grætt upp land sem jafngildir 33.400 fótboltavöllum. Við erum stofnandi og bakhjarl fjögurra samstarfsverkefna um orkuskipti og orkutengda nýsköpun þar sem við leggjum til 80 miljónir árlega á móti landshlutasamtökum sveitarfélaga á viðkomandi svæðum, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og öðrum hagamunaaðilum. Þessum verkefnum, Eimi, Orkídeu, Bláma og Eygló, hefur vaxið hratt fiskur um hrygg.
Við bjóðum upp á vel launuð sérfræðistörf á landsbyggðinni og sumarstöf fyrir ungmenni, auk þess sem starfsemi okkar skapar fjölda afleiddra starfa hjá þjónustuaðilum og viðskiptavinum okkar. Við leitum aldrei langt yfir skammt. Aðstæður eru vissulega misjafnar eftir starfssvæðum, en við náum að kaupa á bilinu 25-65% af vörum og þjónustu til daglegs rekstrar í nærsamfélaginu.
Við tökum einnig þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum með hagaðilum í nærsamfélagi og styrkjum málefni sem hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Sem dæmi má nefna samstarf um bætt og öruggari fjarskipti, brunavarnir, bakkavarnir, rannsóknir og vöktun og við tökum á móti fróðleiksfúsum skólanemum. Við störfum líka með veiðifélögum að verkefnum sem miða að því bæta búsetuskilyrði laxfiska og viðhalda og styrkja náttúrulega stofna í ám á starfssvæðum okkar.