„Rekstur Landsvirkjunar gengur áfram vel. Hagnaður af grunnrekstri jókst um 27% frá sama tímabili ársins 2022, sem þó var metár í sögu fyrirtækisins. Rekstrartekjur jukust um 12,5% frá fyrri helmingi ársins 2022. Munar þar mestu um tekjur vegna innleystra áhættuvarna, auk þess sem raforkusala var áfram mikil, en á móti kemur verðlækkun á þeim mörkuðum sem raforkuverð til stórnotenda er að hluta til tengt við. Á sama tíma lækkaði rekstrar- og viðhaldskostnaður um 6% frá fyrra ári.
Fjármunamyndun var sterk á tímabilinu, en handbært fé frá rekstri jókst um 29,7% og nam 34 milljörðum króna.
Rekstur aflstöðva gekk vel á fyrri helmingi ársins, en á fyrsta fjórðungi þurfti þó að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku til gagnavera og fiskmjölsframleiðenda, þar sem raforkukerfið er nú rekið nærri hámarks afkastagetu.
Eins og við hjá Landsvirkjun höfum ítrekað bent á síðustu ár og misseri ríður á að byggja upp frekari raforkuvinnslu til að uppfylla þá augljósu orkuþörf sem er í samfélaginu vegna orkuskipta og almenns vaxtar í atvinnulífinu. Landsvirkjun vinnur nú hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa svo fyrirtækinu sé unnt að mæta þessum sjálfsögðu kröfum samfélags og stefnu stjórnvalda.“