Blanda af há- og lágþrýstingsgufu
Íslenska ríkið hóf framkvæmdir við byggingu Kröflustöðvar árið 1974 með tilraunaborunum en borun vinnsluhola og bygging stöðvarinnar hófust sumarið 1975. Kröflustöð hóf raforkuframleiðslu árið 1978 og fóru í upphafi aðeins 7 MW út á dreifikerfi Landsnets. Allt frá árinu 1999 hefur Kröflustöð starfað með tveimur vélasamstæðum og fullu 60 MW afli en orkuvinnslugeta Kröflustöðvar er um 465 GWst á ári.
Landsvirkjun tók við rekstri Kröflustöðvar í ársbyrjun 1986 og hefur rekið hana síðan. Tímamót urðu í rekstri Kröflusvæðisins á árinu 2002 þegar niðurdæling á affallsvatni hófst. Með niðurdælingu affallsvatns niður í jarðhitageyminn er stuðlað að endurnýjanleika jarðhitakerfisins.