Kröflustöð

1977Jarðgufustöð

Kröflustöð var gangsett 21. febrúar 1978 og er á Norðausturlandi, í nágrenni við Mývatn.

Blanda af há- og lágþrýstingsgufu

Íslenska ríkið hóf framkvæmdir við byggingu Kröflustöðvar árið 1974 með tilraunaborunum en borun vinnsluhola og bygging stöðvarinnar hófust sumarið 1975. Kröflustöð hóf raforkuframleiðslu árið 1978 og fóru í upphafi aðeins 7 MW út á dreifikerfi Landsnets. Allt frá árinu 1999 hefur Kröflustöð starfað með tveimur vélasamstæðum og fullu 60 MW afli en orkuvinnslugeta Kröflustöðvar er um 465 GWst á ári.

Landsvirkjun tók við rekstri Kröflustöðvar í ársbyrjun 1986 og hefur rekið hana síðan. Tímamót urðu í rekstri Kröflusvæðisins á árinu 2002 þegar niðurdæling á affallsvatni hófst. Með niðurdælingu affallsvatns niður í jarðhitageyminn er stuðlað að endurnýjanleika jarðhitakerfisins.

Landsvirkjun tók við reksti Kröflustöðvar árið 1986.
Landsvirkjun tók við reksti Kröflustöðvar árið 1986.

Helstu stærðir

  • Uppsett afl

    0MW
  • Francis hverflar

    0MW
  • Orkuvinnslugeta

    0GWh /ár

Saga Kröflustöðvar

Kröflustöð

Alls eru 44 háhitaholur í Kröflu

Kröflustöð er jarðgufustöð sem nýtir gufu úr 18 vinnsluholum til að knýja tvo 30 MW hverfla. Vinnslusvæði í hlíðum Kröflu eru nefnd Suðurhlíðar, Hveragil og Leirbotnar. Flatarmál þessara svæða er einungis um 2 km2. Alls hafa verið boraðar 44 háhitaholur í Kröflu og eru þær flestar á svæðinu við Vítismó og Leirbotna og sunnan við fjallið Kröflu. Allt frá árinu 1997 hafa flestar holur á Kröflusvæðinu verið stefnuboraðar. Borkostnaður er hærri en við hefðbundna lóðrétta borun en framkvæmdin er umhverfisvænni þar sem boraðar eru fleiri en ein borhola frá hverjum borteig. Af því leiðir að flatarmál raskaðs svæðis minnkar auk þess að aðgengi að holum takmarkast við færri borteiga.

Borholuhúsin

Utan um hverja borholu er reist sérstakt kúluhús. Tilgangur þess er að verja borholutoppinn og koma í veg fyrir utanaðkomandi slys. Hönnuður kúluhúsanna er Einar Þorsteinn Ásgeirsson, arkitekt, en hann hefur sérhæft sig í hönnun og byggingu hvolfhúsa við íslenskar aðstæður. Fyrsta borholuhúsið var reist árið 1981 á Kröflusvæðinu og var það úr trefjaplasti. Í dag eru hins vegar flest borholuhús í notkun á Íslandi úr áli. Álið er mjög endingar - og hitaþolið og ásamt því að vera sterkt er það einnig mjög létt. Það er því auðvelt að færa eða fjarlægja borholuhúsin.

Fyrir íslenskar aðstæður

Borholuhúsin eru framleidd á Íslandi og eru sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður. Hönnunin er einstök og kúlulaga formið veldur því að þau standa vel af sér vind-og snjóálag. Á flestum jarðhitasvæðum erlendis, þar sem veður eru mild, tíðkast ekki að byggja yfir holutoppana. Íslenskt veðurfar krefst þess hinsvegar að meira skjól sé i kringum stjórn - og mælibúnað en á flestum öðrum stöðum í heiminum.

Heimildarmyndin Krafla

Krafla, umbrot og uppbygging

Eldvirkni á svæðinu

Þrjú gostímabil einkenna sögulegan tíma í Kröflukerfinu; Daleldar í Hlíðardal sunnan við Kröflu nálægt árinu 1000, Mývatnseldar, hraunrennsli til Mývatns og myndun Vítis á árabilinu 1724-1729 og loks Kröflueldar 1975-1984.

Mývatnseldar

Mývatnseldar hófust árið 1724. Sprengigos varð til þess að gígurinn Víti varð til. Í ágúst árið 1727 byrjuðu hraungos sem komu fjórum sinnum aftur í hrinum allt fram til júní árið 1729. 17 árum seinna, árið 1746, hófst smágos sem einnig er flokkað með Mývatnseldum.

Kröflueldar

Kröflueldar hófust í desember 1975 en á þessum tíma var verið að reisa Kröfluvirkjun. Aukin skjálftavirkni hafði átt sér stað á svæðinu dagana áður. Upptök gossins voru í nágrenni við byggingarstað Kröfluvirkjunar.

Kröflueldar hófust í desember 1975.
Kröflueldar hófust í desember 1975.

Frá árinu 1975 til 1984 kom níu sinnum kvika upp á yfirborðið með eldgosi. Það var þó oftar þar sem kvikan náði ekki að komast alveg upp og fór þá sína leið neðanjarðar sem olli jarðhræringum. Út frá þeim myndaðist Skjálftavatn sem er stöðuvatn í Kelduhverfi. Landið seig við umbrot en reis þess á milli, meðan kvika hélt áfram að stíga upp í kvikuhólfið. Hraun úr Kröflueldum eru samtals um 60 ferkílómetrar en magnið 250 milljón rúmmetrar.

Straumhvörf í þekkingu manna á eldvirkni

Bygging Kröflustöðvar var margslungið og flókið verkefni meðal annars vegna þess að eldgos hófst á virkjunarsvæðinu skömmu eftir að framkvæmdir hófust.

Með Kröflueldum og tilkomu Kröflustöðvar verða straumhvörf í þekkingu manna á eldvirkni og jarðfræði þessa svæðis. Eldsumbrotin og rannsóknir á þeim leiddu til uppgötvana á virkni megineldstöðva og juku skilning jarðvísindamanna á því hvað gerist þegar kvika á skilum meginlandsfleka nálgast yfirborð jarðar og eldvirknin birtist i afmörkuðum einingum sem kallast eldstöðvakerfi. Flutningur á kviku eftir sprungum hlaut nafnið kvikuhlaup, en það þótti nýnæmi meðal jarðvísindamanna. Rannsóknirnar bættu miklu við skilning á gerð og eðli jarðhitakerfisins í Kröflu.

Kort af svæðinu norðan Mývatns sem sýnir hinar ýmsu tegundir hrauna sem þar hafa runnið með mismunandi litum.
Kort af svæðinu norðan Mývatns sem sýnir hinar ýmsu tegundir hrauna sem þar hafa runnið með mismunandi litum.

Þær aðferðir og sú reynsla sem menn hafa aflað sér við borun og rannsóknir á Kröflusvæðinu hafa skilað sér við jarðhitaleit og undirbúning háhitavirkjana á Íslandi. Á það sérstaklega við aðferðir er tengjast bortækni, fóðringu á holum og skoðun á jarðhitasvæðum. Sá lærdómur sem menn telja þó hvað mikilvægastan af virkjun Kröflu er að hvert jarðhitasvæði er einstakt er varðar eiginleika, hegðun og hvernig það bregst við nýtingu. Virkni Kröfluelda varpaði ljósi á marga þætti sem áður voru mönnum torskildir eða óþekktir.