Þrátt fyrir litla úrkomu og kuldatíð á hálendinu stendur orkukerfi Landsvirkjunar vel og er ekki útlit fyrir takmarkanir á raforkuafhendingu á yfirstandandi vetri. Innrennsli í miðlunarlón Landsvirkjunar hefur verið í minna lagi í haust og engir vetrarblotar náð inn á hálendið það sem af er vetri. Öll miðlunarlón voru full fram yfir miðjan október en niðurdráttur verið síðan þá.
Heildarstaða miðlana um áramót er ekki jafn góð og í fyrra, en svipuð og árið 2017. Lítið innrennsli hefur verið á Þjórsársvæði og er staða Þórisvatns því ekki jafn góð og síðustu ár, en takmarkanir í flutningskerfi Landsnets torvelda Landsvirkjun að jafna stöðu miðlunarlóna milli landshluta. Truflanir vegna óveðra í desember höfðu einnig áhrif.