Landsvirkjun selur raforku til Norðuráls samkvæmt tveimur langtímasamningum, auk sölu til skamms tíma eftir atvikum. Langtímasamningarnir eru tengdir markaðsverði, án verðgólfs eða verðþaks og Norðurál hefur ekki lagt fram ábyrgðir í tengslum við raforkukaup.
Samningur 1 (161 MW) var gerður árið 1997 þegar álverið hóf starfsemi sína á Grundartanga og var orkumagn samningsins minna en það er í dag. Raforkuverðið var upphaflega tengt álverði og var miðað við að Landsvirkjun afhenti rafmagnið við álverið. Flutningskostnaður var þannig innifalinn í raforkuverðinu, enda rak Landsvirkjun þá flutningskerfið, sem Landsnet rekur nú. Árið 2016 var samið um framlengingu samningsins til ársins 2023 og breytingar á samningum tóku gildi í nóvember 2019. Stærstu breytingarnar sneru að raforkuverði og fólust í því að tenging raforkuverðs við álverð var afnumin og var raforkuverðið í stað þess tengt verði á Nord Pool, raforkumarkaði Norðurlandanna. Landsvirkjun hætti árið 2019 að greiða að fullu flutningsgjöld vegna samningsins og aðilar sömdu um að skipta þeim flutningsgjöldum, sem greiða þarf til Landsnets, jafnt á milli sín.
Samningur 2 (25 MW) var gerður árið 2009 í tengslum við stækkun álversins. Sá samningur er tengdur álverði og gildir til ársins 2029. Norðurál greiðir flutningsgjöld vegna samningsins beint til Landsnets. Í samningnum var möguleiki á raforkusölu til Norðuráls umfram upphafleg 25 MW en sú sala var háð skilyrðum sem náðust ekki fyrir tilgreindan tíma og því snýr þessi samningur einungis að sölu á 25 MW og 212 GWst á ári.
Raforkuverð í samningunum tveimur við Norðurál hefur ekki verið viðunandi fyrir Landsvirkjun. Sökum óhagstæðrar þróunar á þeim mörkuðum sem samningarnir eru tengdir við hefur raforkuverð reynst lægra en búist var við þegar samningarnir voru undirritaðir. Væntingar Landsvirkjunar eru þær að raforkuverð á Nord Pool hækki aftur eftir óvenjulegar aðstæður árið 2020 og sögulega lágt verð og Landsvirkjun fái sanngjarnt raforkuverð í þeim samningi sem tengdur er verði raforku á Nord Pool. Þróun verðs á Nord Pool á fyrstu mánuðum ársins 2021 hefur verið með þeim hætti að verðin eru komin á svipaðan stað og þau voru á árunum fyrir 2020.
Á grafinu fyrir neðan sést raforkuverð í samningunum tveimur fyrir hvern mánuð samkvæmt verðformúlum þeirra og einnig kemur fram hvert raforkuverðið hefði verið ef viðkomandi markaðstenging hefði verið í gildi (punktalína).