Vatnsaflsstöðin Akhalkalaki í Georgíu, sem Landsvirkjun á hlut í og hefur tekið þátt í að reisa, verður vígð við hátíðlega athöfn á morgun, 5. nóvember. Uppsett afl stöðvarinnar er tæplega 10 MW og mun hún vinna um 50 GWst af endurnýjanlegri raforku árlega. Hluti af verkefninu var einnig uppbygging á tengdum innviðum í nærsamfélagi stöðvarinnar, svo sem áveitukerfi og veitukerfi drykkjarvatns.
Eignarhlutur Landsvirkjunar er í gegnum dótturfélagið Landsvirkjun Power, sem heldur utan um erlend verkefni fyrirtækisins. Tilgangur Landsvirkjunar Power er að flytja út þá sérþekkingu sem við Íslendingar höfum aflað okkur á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla þannig að orkuskiptum erlendis. Félagið veitir ráðgjöf við undirbúning, byggingu og rekstur endurnýjanlegra virkjunarkosta og tekur þátt í þróun þeirra.
Íslenska verkfræðistofan Verkís var í nánu samstarfi við Landsvirkjun Power í Akhalkalaki verkefninu og hafði yfirumsjón með hönnun þess. Eigendur verkefnisins eru þrír: Caucasus Clean Energy Holding, sem fjárfestir einungis í vatnsaflsvirkjunum í Georgíu, LPV Co, sem er í eigu Landsvirkjunar Power og verkfræðistofunnar Verkís og Hydro Energy, georgískt félag sem var stofnað sérstaklega um upphaflega þróun verkefnisins.