Raforkuöryggi almennings ekki tryggt
Raforkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja er ógnað og stjórnvöld verða að grípa til aðgerða, eigi ekki illa að fara.
Landsvirkjun hefur um tíu ára skeið bent á nauðsyn þess að tryggja raforkuöryggi almennings með lögum enda er raforkan grundvöllur daglegra athafna okkar. Almenni markaðurinn, þ.e. heimili og öll almenn fyrirtæki, notar um 4 TWst (20%) af þeim 20 TWst sem hér eru framleiddar. Stórnotendur, álver, kísilver og gagnaver, nota um 80% framleiðslunnar og hafa tryggt sér raforku með samningum langt fram í tímann.
Almenni markaðurinn er fyrirsjáanleg stærð og vöxtur hans er um 2-3% á ári. Sá vöxtur verður vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu og vegna fólksfjölgunar. Töluvert hefur skort upp á yfirsýn stjórnvalda og eftirlitsaðila á stöðu raforkuöryggis almennings. Til að ráða bót á þessu safnar Orkustofnun nú upplýsingum frá markaðsaðilum um tryggt framboð fyrir almenna markaðinn næstu tvö árin og birtir ársfjórðungslega Raforkuvísa. Í nýjasta Raforkuvísi frá því í október kemur fram að 90% – 100% af þörf almenna markaðarins virðist hafa verið uppfyllt fram á vor en staðan í raforkukerfinu er mjög tvísýn í vetur.
Landsnet hefur gefið út vandaða og ítarlega raforkuspá fyrir komandi ár. Sú mynd sem þar er dregin upp er dökk: Umfram eftirspurn og orkuskortur til 2030 vegna tafa í leyfisveitingum og gangsetningu nýrra virkjana. Framboð raforku fyrir almenna markaðinn hefur ekki verið tryggt að fullu fyrir næstu ár og raforkuöryggi almennings því ógnað.