Landsvirkjun þróar þjónustu til að jafna vindafl

08.11.2024Fyrirtækið
Hafið
Hafið

Landsvirkjun þróar þjónustu til að jafna vindafl

Landsvirkjun mun á næstunni bjóða aðilum sem þróa vindgarða til samtals um þjónustu til að jafna vindorkuvinnslu, svokallaða vindjöfnunarþjónustu. Vindjöfnunarþjónustan færi þannig fram að Landsvirkjun tæki á móti breytilegri vindorku þegar mikill vindur er og gæti þá safnað vatni í lónin á meðan. Vindorkufyrirtækin fengju svo orku á móti þegar lægði. Þannig gætu vindorkuver samið við viðskiptavini sína um fyrirsjáanlega afhendingu rafmagns. Eðli málsins samkvæmt yrði slík þjónusta þó háð ýmsum skorðum, s.s. framboði á afli, þróun laga- og reglugerða um vindorku, takmörkunum á raforkuflutningi á milli landsvæða og fleiri þáttum.

Langtímasamningar styðja uppbyggingu

Fyrirhugað er að hægt verði að gera tvíhliða langtímasamninga um vindjöfnunarþjónustu. Þannig gæti orðið til grundvöllur fyrir fjárfestingar í vindorkuvinnslu, byggðar á langtímaraforkusölu á milli eigenda vindorkuvera og viðskiptavina þeirra sem þurfa áreiðanlegt framboð raforku, óháð veðri.

Stýranlegt afl sem er nauðsynlegt vindorkujöfnun er af skornum skammti á Íslandi. Landsvirkjun hefur þurft að skerða afl í auknum mæli undanfarin ár vegna sífellt fjölgandi og hækkandi álagstoppa. Fyrirtækið vinnur að því að bæta við stýranlegu vatnsafli í raforkukerfið, m.a. með aflaukningu í Sigöldu og byggingu Hvammsvirkjunar. Framkvæmdir við þessi verkefni eru rétt að hefjast og því nokkur ár í gangsetningu þeirra. Á sama tíma er aflþörf hjá Landsvirkjun að aukast vegna viðskiptavina, viðhalds kerfisins og kerfisþjónustu Landsnets og því mun Landsvirkjun ávallt forgangsraða þeim skuldbindingum.

Vindjöfnunarþjónustan verður að öllum líkindum skerðanleg að hluta til þegar álag á vinnslukerfi Landsvirkjunar er mest en skerðingar á vindjöfnunarþjónustunni gætu kallað á sveigjanleika af hálfu notenda raforkunnar. Á grundvelli nýrra vatnsaflsverkefna og fleiri ráðstafana stefnir Landsvirkjun að því að bjóða til sölu allt að 100 MW af skerðanlegu afli til vindjöfnunar sem gæti hugsanlega jafnað allt að 250 MW af uppsettu vindafli.

Mikilvægi staðsetningar

Flutningstakmarkanir á milli landshluta setja mark sitt á getu Landsvirkjunar og orkukerfisins til að afhenda orku almennt og þær skipta einnig miklu máli þegar kemur að vindjöfnun. Þar þarf sérstaklega að huga að staðsetningu vindorkuvinnslu, endanotenda og stýranlegs afls í vinnslukerfi Landsvirkjunar. Það verður því að skoða hvert verkefni fyrir sig.

Áhugasamir aðilar eru hvattir til að hafa samband við Landsvirkjun.