Ferðaþjónusta og orkuvinnsla fara vel saman
Ekkert rennir stoðum undir þær fullyrðingar að orkuvinnsla vinni gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar. Öðru nær, yfirgnæfandi meirihluti ferðafólks hefur ekkert á móti því að sjá mannvirki og önnur ummerki um græna orkuvinnslu Íslendinga.
Það er óumdeilanleg staðreynd, staðfest í ótal könnunum, að ferðafólk sem kemur til landsins gerir það til að njóta fegurðar íslenskrar náttúru. Svo heyrist oft, að þetta sama ferðafólk vilji ekki koma til landsins ef það eigi á hættu að sjá virkjanamannvirki. Gengið er út frá því að ef fólk hafi áhuga á náttúru Íslands sé það sjálfkrafa á móti endurnýjanlegri orkuvinnslu.