Auknar skerðingar í erfiðu árferði

23.10.2024Orka

Skerðingar fram á vor

Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum á norður- og austurhluta landsins að grípa verði til skerðinga á afhendingu raforku til þeirra frá 23. nóvember. Á morgun, 24. október, taka jafnframt gildi áður boðaðar skerðingar hjá stórnotendum á suðvesturhluta landsins. Ekki er hægt að sjá fyrir hversu lengi þessar skerðingar munu standa, en þó má reikna með að það verði fram á næsta vor. Þá hefur Landsvirkjun jafnframt hvatt stórnotendur til að draga úr álagi og skoða mögulega endursölu á rafmagni í þeim tilgangi. Þetta eru sambærilegar aðgerðir og gripið var til í skerðingum fyrr á þessu ári.

Ástæða þessa er, nú sem fyrr, slæm staða miðlunarlóna. Þórisvatn var langt frá því að fyllast í haust og niðurdráttur lónsins hefur verið mjög eindreginn. Sumarið var þurrt og kalt á hálendinu og bráðnun jökla lítil. Á sama tíma hefur staðið yfir stöðugur flutningur raforku frá Norður- og Austurlandi til suðurs í þeim tilgangi að jafna miðlunarstöðu milli landshluta. Vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets var ekki gripið til skerðinga fyrir norðan og austan fyrr en nú.

Skert í samræmi við samninga

Rétt er að ítreka að aðeins er verið að skerða orku sem Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar hafa samið um að sé skerðanleg þegar staða miðlunarlóna er lág.