Heildsölusamningar

Landsvirkjun býður fjölbreytt úrval heildsölusamninga og viðskiptavinir hafa sveigjanleika varðandi tímalengd samninga. Í gegnum viðskiptavef geta viðskiptavinir fest kaup á raforku með skömmum fyrirvara. Vörur og þjónusta fyrirtækisins er í stöðugri þróun til að mæta sem best þörfum viðskiptavina.

Forgangsorka

Grunnorka

Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins allt árið. Grunnorka hentar þeim sem hafa stöðuga notkun til lengri tíma. Verð grunnorku er í krónum á megawattstund (kr/MWst).

Breytileg orka

Kaup á breytilegu magni forgangsorku (MWst) innan umsamdra aflmarka (MW) í einn mánuð. Breytileg orka hentar þeim sem hafa breytileika í notkun innan mánaðar, t.d. á milli dags og nætur. Verð breytilegrar orku er tvískipt, annars vegar orkugjald í krónum á megawattstund (kr/MWst) og hins vegar aflgjald í krónum á megawatt á mánuði (kr/MW/mánuði). Orkugjald og aflgjald geta verið mismunandi milli mánaða.

Mánaðarblokk

Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins í einn mánuð. Mánaðarblokk hentar þeim sem hafa stöðuga notkun innan mánaðar en breytilegt álag milli mánaða. Verð mánaðarblokka er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli mánaða.

Skammtímakaup

Kaup á stökum klukkustundum af forgangsorku (MWst) með minnst 125 mínútna fyrirvara. Skammtímakaup henta t.d. vel til að mæta skammtíma afltoppum eða óvæntum sveiflum í notkun. Verð í skammtímakaupum er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli klukkustunda.

Skerðanleg orka

Skerðanleg orka til kyntra veitna

Kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið hætt afhendingu, t.d. vegna bilana í virkjunum (skerðingar eiga sér stað með minna en klukkustundar fyrirvara) eða vegna slæmrar vatnsstöðu (skerðingar í nokkrar vikur/mánuði í senn).

Samið er til heils árs í senn. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun, komi til skerðingar. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls og áætlun er gerð um orkunotkun.

Skerðanleg orka til iðnaðar

Skammtímasamningur um kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið takmarkað eða hætt afhendingu. Samið er til nokkurra mánaða í senn.

Þar sem afhending fer að mestu leyti eftir vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar getur komið upp sú staða að engir slíkir samningar séu í boði einhvern tíma. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun komi til skerðingar á meðan samningurinn er í gildi. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls sem Landsvirkjun er frjálst að takmarka.

Kaupandi þarf ekki að skuldbinda sig til að kaupa lágmarksmagn af raforku og hentar það vel þar sem þörfin er óviss.