Heildsölusamningar

Landsvirkjun býður fjölbreytt úrval heildsölusamninga og viðskiptavinir hafa sveigjanleika varðandi tímalengd samninga. Með tilkomu skipulegs raforkumarkaðs fer sala heildsölusamninga að mestu leyti fram í gegnum þá.

Viðskiptavinir Landsvirkjunar geta keypt ákveðnar vörur, skammtímakaup og aflþjónustu, með beinum hætti á viðskiptavef fyrirtækisins. Vörur og þjónusta fyrirtækisins er í stöðugri þróun til að mæta sem best þörfum viðskiptavina.

Forgangsorka

Grunnorka

Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins allt árið. Grunnorka hentar þeim sem hafa stöðuga notkun til lengri tíma. Verð grunnorku er í krónum á megawattstund (kr/MWst).

Mánaðarblokk

Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins í einn mánuð. Mánaðarblokk hentar þeim sem hafa stöðuga notkun innan mánaðar en breytilegt álag milli mánaða. Verð mánaðarblokka er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli mánaða.

Skammtímakaup

Kaup á stökum klukkustundum af forgangsorku (MWst) með minnst 125 mínútna fyrirvara. Skammtímakaup henta t.d. vel til að mæta skammtíma afltoppum eða óvæntum sveiflum í notkun. Verð í skammtímakaupum er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli klukkustunda.

Aflþjónusta

Kaup á sama magni forgangsafls (MW) allar klukkustundir sólarhringsins í einn mánuð. Aflþjónusta hentar þeim sem hafa breytileika í notkun innan mánaðar, t.d. á milli dags og nætur. Verð aflþjónustu er í krónum á megawatt á mánuði (kr/MW/mánuði) og getur verið mismunandi milli mánaða.

Raforka til húshitunar

Haustið 2024 gerðu Landsvirkjun og sölufyrirtæki með sér samninga um sölu á forgangsorku til fjarvarmaveitna en samningarnir eru til fjögurra ára.

Samningarnir brúa bilið á meðan fjarvarmaveitur þróast í átt að bættri nýtingu og aukinni notkun á heitu vatni og eru þannig upphaf fullra orkuskipta fjarvarmaveitna um allt land.

Skerðanleg orka til iðnaðar

Skammtímasamningur um kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið takmarkað eða hætt afhendingu.

Þar sem afhending fer að mestu leyti eftir vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar getur komið upp sú staða að engir slíkir samningar séu í boði í einhvern tíma. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun komi til skerðingar á meðan samningurinn er í gildi. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls sem Landsvirkjun er frjálst að takmarka.

Kaupandi þarf ekki að skuldbinda sig til að kaupa lágmarksmagn af raforku og hentar það vel þar sem þörfin er óviss.