Fyrsta einkunn okkar hjá CDP árið 2016 var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Við fengum C og vorum ekki sátt. C þýddi einfaldlega að við gerðum okkur grein fyrir þeim áhrifum sem starfsemi Landsvirkjunar hafði á loftslagið og þau áhrif sem loftslagsbreytingar og aðgerðir gegn þeim höfðu á starfsemina. Við höfðum hins vegar ekki náð fullum tökum á að stýra þeim áhrifum og afleiðingum þeirra. Við töldum þetta reyndar misskilning og ári síðar vönduðum við okkur enn meira við að fylla út öll nauðsynleg skjöl. Aftur fengum við C og það þrátt fyrir að vart væri hægt að finna orkufyrirtæki í heiminum með lægra kolefnisspor.
Við gáfumst ekki upp og áttuðum okkur fljótt á því að við yrðum að fara enn dýpra en áður í mælingum og pælingum. Einkunn CDP er brotin upp í 12 þætti og við fórum ítarlega yfir hvern og einn. Þeir ná yfir stjórnarhætti og ábyrgð á loftslagsmálum innan fyrirtækja, hvernig brugðist er við loftslagstengdum áhættum og tækifærum og hvernig þær endurspeglast í viðskiptamódeli fyrirtækisins og samskiptum við hagaðila. Þá ná þeir einnig yfir upplýsingar um losun vegna starfseminnar, markmið og aðgerðir um samdrátt í losun, eftirfylgni og árangur.
Ábyrgir starfshættir þegar kemur að loftslagsmálum snúast nefnilega ekki bara um að losa lítið heldur líka hvernig starfsemin styður markvisst við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og að sjálfbærri þróun. Við þurftum því að skoða alla virðiskeðju fyrirtækisins, hvað við gerum og hvernig við gerum það. Átta árum síðar státum við af einkunninni A, en aðeins 1,5% þeirra tugþúsunda fyrirtækja sem skila upplýsingum til CDP árlega ná þeim árangri.