Umhverfisstofnun áformar að veita heimild vegna Hvammsvirkjunar

22.12.2023Hvammsvirkjun

Umhverfisstofnun kynnti í dag áform um að veita heimild til breytinga á vatnshloti í Þjórsá vegna Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga.

Umhverfisstofnun kynnti í dag áform um að veita heimild til breytinga á vatnshloti í Þjórsá vegna Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í niðurstöðukafla ítarlegrar skýrslu Umhverfisstofnunar segir meðal annars:

  • Það er mat Umhverfisstofnunar að framkvæmdaraðili hafi því lagt fram gögn sem sýna fram á að gripið verði til allra þeirra ráðstafana sem raunhæfar teljast til að draga úr skaðlegum áhrifum á ástand vatnshlotsins Þjórsár 1 og uppfylli hann því skilyrði a-liðar, 2. mgr. 18.gr. laganna.
  • Umhverfisstofnun telur því að tilgangur Hvammsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi varði almannahagsmuni sem vegi þyngra en ávinningur af því að umhverfismarkmið vatnshlotsins sem að framan er lýst náist. Þegar af þessari ástæðu telur Umhverfisstofnun að skilyrði b-liðar 2. mgr. séu uppfyllt.
  • Með vísan til ákvörðunar Alþingis um að setja Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk telur Umhverfisstofnun að fyrir liggi ákvarðanir löggjafarvaldsins um mat á þjóðhagslegri hagkvæmni Hvammsvirkjunar. Greiningar Orkustofnunar í svarbréfi stofnunarinnar dags. 20. desember 2023 styðja einnig þessa niðurstöðu, auk þess að bent er á fleiri valkosti en Hvammsvirkjun sé meðal þeirra kosta sem eru heppilegastir. Umhverfisstofnun telur því að framkvæmdin uppfylli skilyrði c-liðar 2. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011.

Með vísan til framangreinds mats og niðurstaðna af því áformar Umhverfisstofnun að veita umbeðna heimild.

Endanleg niðurstaða verður tilkynnt að loknum fresti til athugasemda sem er til 17. janúar 2024. Verði heimildin veitt, hefur Orkustofnun umfjöllun um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun að nýju. Stofnuninni ber að taka ákvörðun um útgáfu virkjunarleyfis innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist stofnuninni.

Verði virkjunarleyfið veitt geta sveitarfélögin tvö, Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur gefið út framkvæmdaleyfi. Gangi allt eftir gætu undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun hafist í vor.

Sjá áform um heimild