Þessi rafknúni heimur okkar
Flestir Íslendingar þurfa aldrei að leiða hugann að því hvaðan raforkan kemur og hvort nóg sé til af henni. Við vöknum, kveikjum ljós, tökum símann úr hleðslu, hellum upp á kaffi og njótum kaffisopans um leið og við hlustum á útvarpið. Svo tökum við bílinn eða hjólið okkar úr hleðslu, höldum í vinnuna í birtu ljósastauranna og látum götuvitana um að stýra umferðinni. Tökum lyftuna upp á rétta hæð þar sem rafknúnar rennihurðir færa sig kurteislega til hliðar. Inni er allt uppljómað af ljósum og tölvuskjám. Á öðrum vinnustöðum er rafmagnið auðvitað jafn mikilvægt, það knýr starfið í skólunum, allt frá leikskólum til háskóla, heilbrigðiskerfið gæti ekki starfað án þess, ferðaþjónustan myndi fljótt lenda í vandræðum ef hótel og veitingastaðir fengju ekki nóg rafmagn og svona mætti lengi telja. Við búum við orkuöryggi, en getum við treyst á að svo verði áfram?“
Kristín Linda Árnadóttir er aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og hefur verið í rúm fjögur ár. Áður gegndi hún stöðu forstjóra Umhverfisstofnunar í rúman áratug. „Ég hef átt því láni að fagna að koma að orkumálum frá ýmsum hliðum. Raforkumál á Íslandi eru umhverfis- og loftslagsmál því við eigum kost á fullum orkuskiptum þar sem græna orkan okkar kemur í stað jarðefnaeldsneytis.“
Raforkuöryggi heimilanna hefur verið töluvert til umræðu. Kristín Linda segir fulla ástæðu til að ræða það í þaula. „Það er engin ástæða til að predika heimsendaspá. Við erum svo lánsöm að eiga 100% græna orkuvinnslu og við höfum stórt forskot á flestar aðrar þjóðir hvað orkuskipti varðar. Fyrri kynslóðir hér á landi sáu til þess með því að leggja hitaveitu alls staðar þar sem henni varð við komið og rafmagnsvæðingin var með ólíkindum skjót og almenn.“
Hún telur að Íslendingar hafi orðið dálítið værukærir með árunum. „Við erum svo góðu vön og höfum gengið að hreinu orkunni okkar vísri. Þess vegna höfum við ekki hirt um að tryggja nægilegt framboð af henni til að heimili og allir almennir vinnustaðir geti treyst á hana um alla framtíð. Forskot okkar í grænni orkuvinnslu hverfur hratt ef við höldum ekki vel á spöðunum.“