Bjarni Pálsson kjörinn í stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins

21.04.2023Orka

Dr. Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma hjá Landsvirkjun, hefur verið kjörinn í stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins, The International Geothermal Association (IGA). Hin nýkjörna stjórn tekur til starfa í kjölfar næsta aðalfundar sambandsins, sem fer fram í maíbyrjun.

Bjarni var formaður skipulagsnefndar heimsþings sambandsins sem haldið var í Reykjavík haustið 2021 og hefur áður setið í stjórn IGA 2010-2016. Bjarni er með doktorspróf í olíuverkfræði og hefur sinnt ýmsum störfum innan Landsvirkjunar frá árinu 2002.

Einnig var Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmastýra Veitna, kjörin í stjórn IGA.

Heiður og viðurkenning

Bjarni segir að það sé í senn heiður og viðurkenning fyrir íslenskt jarðhitasamfélag að tveir íslenskir fulltrúar skulu vera kjörnir í 15 manna stjórn alþjóðasamtaka eins og IGA. „Í baráttunni við loftslagsáhrif og með aukinni áherslu á nýtingu innlendra og endurnýjanlegra orkugjafa hefur áhugi á jarðhitanýtingu aldrei verið meiri í heiminum. Ég mun vinna ötullega að því kynna á alþjóðavettvangi hvernig Ísland hefur þróað leiðir til að beisla jarðvarma farsællega til hagsbóta fyrir mannlíf og efnahag landsins, þar sem mikilvægt er að huga að jafnvægi milli efnahagslegra áhrifa, umhverfis og samfélags,“ segir hann.

Frétt IGA um nýja stjórn