Aukið afl í Sultartanga
Aflaukningu Sultartangastöðvar um 8 MW er lokið og er virkjunin nú 140 MW að stærð. Árið 2022 var skipt um annan rafala stöðvarinnar og á síðasta ári hófst vinna við endurnýjun hins rafalans og því verki er nú lokið.
Þörf á auknu afli í Sultartangastöð varð aðkallandi eftir stækkun Búrfellsvirkjunar 2018. Með þeirri stækkun jókst virkjað rennsli Búrfellsstöðvar úr 288 rúmmetrum á sekúndu í um 380 m³/sek. Hámarksrennsli um Sultartangastöð var þá um 322 m³/sek. Ef keyra þurfti Búrfellsstöð á fullum afköstum varð að hleypa vatni um farveg Þjórsár frá Sultartangalóni fram hjá Sultartangastöð að Ísakoti, inntaki Búrfellsstöðvar. Við það rann vatn óvirkjað fram hjá Sultartangastöð. Að vetri gátu skapast talsverð vandamál við slíkar aðstæður þar sem snjóalög og ís geta valdið krapamyndun og erfiðleikum við Ísakot og þar með rekstrartruflunum í Búrfellsstöð.
Landsvirkjun hófst handa við að undirbúa hugsanlega aflaukningu fyrir mörgum árum, en verkefnið fólst fyrst og fremst í endurnýjun rafala, auk annarra breytinga á vélbúnaði stöðvarinnar, t.d. slípun hverfla -og rafalaöxuls.
Aflaukning Sultartangastöðvar var ekki háð mati á umhverfisáhrifum enda engar breytingar eða viðbætur á mannvirkjum eða rask á umhverfi.