Aukið afl í Sultartanga

05.02.2024Orka

Aflaukningu Sultartangastöðvar um 8 MW er lokið og er virkjunin nú 140 MW að stærð.

Sultartangastöð
Sultartangastöð

Aukið afl í Sultartanga

Aflaukningu Sultartangastöðvar um 8 MW er lokið og er virkjunin nú 140 MW að stærð. Árið 2022 var skipt um annan rafala stöðvarinnar og á síðasta ári hófst vinna við endurnýjun hins rafalans og því verki er nú lokið.

Þörf á auknu afli í Sultartangastöð varð aðkallandi eftir stækkun Búrfellsvirkjunar 2018. Með þeirri stækkun jókst virkjað rennsli Búrfellsstöðvar úr 288 rúmmetrum á sekúndu í um 380 m³/sek. Hámarksrennsli um Sultartangastöð var þá um 322 m³/sek. Ef keyra þurfti Búrfellsstöð á fullum afköstum varð að hleypa vatni um farveg Þjórsár frá Sultartangalóni fram hjá Sultartangastöð að Ísakoti, inntaki Búrfellsstöðvar. Við það rann vatn óvirkjað fram hjá Sultartangastöð. Að vetri gátu skapast talsverð vandamál við slíkar aðstæður þar sem snjóalög og ís geta valdið krapamyndun og erfiðleikum við Ísakot og þar með rekstrartruflunum í Búrfellsstöð.

Landsvirkjun hófst handa við að undirbúa hugsanlega aflaukningu fyrir mörgum árum, en verkefnið fólst fyrst og fremst í endurnýjun rafala, auk annarra breytinga á vélbúnaði stöðvarinnar, t.d. slípun hverfla -og rafalaöxuls.

Aflaukning Sultartangastöðvar var ekki háð mati á umhverfisáhrifum enda engar breytingar eða viðbætur á mannvirkjum eða rask á umhverfi.

Hjálpar í glímu við afltoppa

Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri Vatnsafls:

„Aflaukning Sultartanga hjálpar fyrst og fremst í glímu við afltoppa, en orkuaukningin er samt sem áður nokkur. Undanfarin misseri hefur skortur á afli háð okkur. Orkan hefur oft verið nægileg en aflið vantar. Þessu má líkja við rútu sem hefur nægt bensín (orku) en ekki nógu öfluga vél (afl) til að komast upp allar brekkur. Við þurfum að auka afl í vinnslukerfinu okkar, til að nýta aukið innrennsli og svara um leið aukinni eftirspurn eftir sveigjanleika, m.a. tengt orkuskiptum.“

Landsvirkjun undirbýr fleiri verkefni til að auka afl í vinnslukerfi fyrirtækisins, m.a. stækkun Sigöldu, sem mun nýtast til að jafna út sveiflur í vinnslu orku í vindorkuverinu Búrfellslundi. Við byggingu Sigöldu á 8. áratugnum var sú fyrirhyggja sýnd að reikna með fjórða hverflinum síðar, en nú nýtir aflstöðin þrjá 50MW hverfla. Mati á umhverfisáhrifum er lokið og unnið er að öflun tilskilinna leyfa. Sótt hefur verið um virkjunarleyfi og í framhaldinu verður sótt um framkvæmdaleyfi frá sveitarstjórn. Vonast er til að stækkuninni verði lokið seinni hluta árs 2027.