Árangursrík aðlögun að íslenskum aðstæðum

04.03.2024Fyrirtækið

Grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 2. mars 2024.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Árangursrík aðlögun að íslenskum aðstæðum

Evrópuþjóðir renna nú öfundaraugum til Íslands vegna þess einstaka raforkukerfis og -markaðar sem okkur hefur tekist að byggja hér upp. Þetta er eina einangraða raforkukerfið í heiminum með 100% endurnýjanlega orku. Því fylgja að sjálfsögðu ýmsar áskoranir en þegar horft er til mikilvægustu eiginleika orkukerfa kemur í ljós að við stöndum líklega betur en öll önnur lönd með:

  • nýtingu endurnýjanlegrar orku
  • stöðugt, lágt orkuverð til almennings og örugga afhendingu
  • mjög góða nýtingu kerfisins
  • samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir stórnotendur
  • viðunandi arðsemi orkuvinnslunnar

Þetta hefur tekist með því að laga virkt viðskiptaumhverfi að íslenskum aðstæðum. Með því að tvískipta markaðnum hefur heimilum og smærri fyrirtækjum verið tryggð örugg orka á sanngjörnu og stöðugu verði. Um leið hefur verið skapað samkeppnishæft umhverfi fyrir stórnotendur með gerð langtímasamninga sem leiðir til fyrirsjáanleika í rekstri en einnig sveigjanleika.

Fyrirsjáanleiki í eftirspurn til nokkurra ára og góð þekking á náttúruauðlindinni er nauðsynleg til að stýra kerfi þar sem orkuvinnslan stjórnast af náttúrunni. Nýtingin er til að mynda hámörkuð með þeirri séríslensku nálgun að selja skerðanlega orku til þeirra sem geta dregið úr notkun þegar illa árar.

Öllum opið

Undanfarið hefur verið mikil umræða um mögulegan orkuskort - en á árunum 2019-2021 var hins vegar nokkur slaki í orkukerfinu, eftirspurn var minni en framboð meðal annars vegna þess að stórnotendur nýttu sér skerðingarheimildir. Slaki í raforkukerfinu kom eingöngu fram hjá Landsvirkjun á meðan aðrir raforkuframleiðendur náðu að fullnýta sínar virkjanir óháð markaðsaðstæðum. Þetta gildir einnig um allar smávirkjanir svo það virðast ekki vera neinar markaðslegar aðgangshindranir inn á markaðinn.

Landsvirkjun hefur þannig séð um að halda kerfinu í jafnvægi og selt minna þegar framboðið eykst eða eftirspurnin minnkar. En einnig aukið framboð til að mæta fyrirsjáanlegum vexti í eftirspurn í samfélaginu með því að taka í rekstur þrjár nýjar virkjanir á síðustu 10 árum.

Heilt yfir hefur okkur sem sagt gengið mjög vel. Við búum við hagkvæmt, endurnýjanlegt kerfi með nálægt hámarks nýtingu. Rekstur stórnotenda er fyrirsjáanlegur og byggir á langtímasamningum. Raforkuverð er samkeppnishæft og orkuöryggi er í forgangi. Samfélagið nýtur ávinningsins í formi skatta og arðgreiðslna. Þessum árangri getum við verið stolt af þótt auðvitað sé ekkert kerfi fullkomið og ýmsar áskoranir framundan eins og alltaf.

Þetta er meðal þess sem við ætlum að ræða á ársfundi Landsvirkjunar í Hörpu þriðjudaginn 5. mars kl. 14.