Fylgdu okkur á samfélagsmiðlum!
Við hjá Landsvirkjun leitumst við að miðla fjölbreyttu, fróðlegu og skemmtilegu efni á samfélagsmiðlum okkar, þar á meðal myndum og efni af ársfundinum 2024.
Þú getur fylgt okkur á eftirfarandi miðlum:
Ársfundurinn okkar var haldinn fyrir fullum Norðurljósasal Hörpu. Yfirskrift fundarins var Orka í þágu þjóðar. Um 400 manns sóttu fundinn og að auki fylgdust um 1.300 manns með beinu streymi.
5. mars 2024
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með eignarhlut þjóðarinnar í Landsvirkjun, ávarpaði fundinn og óskaði fyrirtækinu, starfsfólki þess og eigendum öllum til hamingju með gríðarsterka rekstrarniðurstöðu orkufyrirtækis þjóðarinnar. Skynsamlegar ákvarðanir og framkvæmdir við nýtingu á orkuauðlindum skiluðu samfélaginu gríðarlegum verðmætum.
Ráðherra sagði að ef ekki væri sótt fram jafngilti það afturför. Við þyrftum sífellt að gera betur til að viðhalda stöðu okkar sem framúrskarandi og friðsælt samfélag þar sem efnahagsleg og menningarleg lífskjör væru með besta móti. Við mættum ekki ganga að þeirri stöðu sem sjálfsagðri.
Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að máta allar ákvarðanir í raforkumálum við þjóðaröryggi, við yrðum að vera undirbúin fyrir áföll og högg. Landsvirkjun væri mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi í opinberri eigu. Hún sagðist enn styðja stofnun Þjóðarsjóðs, varasjóðs sem hægt yrði að grípa til við óvænt áföll og yrði m.a. fjármagnaður með arði af rekstri Landsvirkjunar.
Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður fagnaði góðum árangri í rekstri fyrirtækisins þar sem ársgamalt met var slegið svo um munaði. Landsvirkjun stæði fyllilega jafnfætis öðrum orkufyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum. Þessi árangur væri ekki tilviljun. Að meginstofni mætti rekja hann, annars vegar, til fjárfestinga í nýjum og arðbærum virkjunum og hins vegar til endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini fyrirtækisins, en þeir greiða nú orkuverð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.
Jónas Þór lagði sérstaka áherslu á uppbyggingu Landsvirkjunar sl. áratug, þegar þrjár virkjanir voru teknar í notkun, að Búðarhálsi, Þeistareykjum og Búrfelli II. Þær fjárfestingar hefðu stuðlað að endurreisn íslensks efnahagskerfis eftir hrunið sem lá enn eins og mara á þjóðinni. Kannski mætti segja að við værum í svipuðum sporum nú og fyrir áratug, en miður hefði fyrirtækið ekki fengið svigrúm til þess að svara aukinni eftirspurn eftir raforku. Raforkukerfið væri allt að því uppselt og horfur á að vinnsla næði ekki að mæta eftirspurn fyrr en í fyrsta lagi árin 2027-28, þegar Búrfellslundur og Hvammsvirkjun tengjast kerfinu ef allt gengur að óskum héðan í frá.
Þarna væri ekki við Landsvirkjun að sakast, því margsinnis hefði verið varað við því að hætta væri á orkuskorti ef leyfisveitingaferli yrði ekki gert skilvirkara. Hann benti á að leyfisveitingaferli Hvammsvirkjunar hefði hafist árið 1999 og það segði sig sjálft að kvartöld væri óásættanlegur tími.
Í erindi sínu fór Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, yfir íslenska raforkumarkaðinn og hversu vel hefði tekist til við bæði uppbyggingu hans og rekstur.
Það væri einstakt á heimsvísu að vera með 100% endurnýjanlegt, lokað raforkukerfi en ná samt öllum meginmarkmiðum, þ.e. stöðugu, lágu orkuverði til almennings og öruggri afhendingu, afburða góðri nýtingu kerfisins, samkeppnishæfu starfsumhverfi fyrir stórnotendur og viðunandi arðsemi.
Þetta væri útkoma sem öll Evrópa keppti að og reyndin væri sú að eftir því sem hlutfall endurnýjanlegrar orkuvinnslu hækkaði á meginlandinu, þeim mun nær þokaðist kerfið þar því fyrirkomulagi sem hér væri.
Hörður tók fram að þessi framúrskarandi árangur þýddi þó ekki að engar áskoranir væru fyrir hendi. Nú væri það t.a.m. í höndum stjórnvalda að taka ábyrgð á raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja og greiða fyrir frekari orkuvinnslu ef markmið um orkuskipti og eðlilegan vöxt atvinnulífsins ættu að nást.
Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, fór yfir ávinning af bættri orkunýtni og hversu miklu hún gæti skilað í heildarsamhengi orkuskipta.
Jóna vísaði til greiningar sem unnin var á síðasta ári í samstarfi Landsvirkjunar, Orkustofnunar og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Þar kom fram að tækifæri væru til bættrar orkunýtni á næstu fimm árum um 360 GWst og um 800 GWst til viðbótar eru taldar geta áunnist innan næstu 10 ára ef allir leggjast á eitt, því þessu fylgir einnig kostnaður. Jóna lagði áherslu á að orkunýtni væri alltaf fyrsta val í allri starfsemi Landsvirkjunar.
Greiningin sýnir að þótt tækifæri séu til að bæta orkunýtni er áfram þörf á að mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku til orkuskipta og vaxtar atvinnulífs með aukinni orkuvinnslu.
Ef miðað er við spá Landsnets, þá er þörf á um það bil 6,5 TWst til ársins 2035 og hámarksorkunýtni skilar aðeins 1,3 TWst á þeim tíma.
Árið 2023 var besta rekstrarár í sögu Landsvirkjunar, allt frá stofnun orkufyrirtækis þjóðarinnar árið 1965.
Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri Fjármála og upplýsingatækni, sagði ánægjulegt að Landsvirkjun væri nú farin að ná arðsemiskröfu eigandans. Skuldir væru sömuleiðis í sögulegu lágmarki og lánshæfismat Landsvirkjunar hækkaði í A- í fyrra, sem endurspeglar sterka fjárhagsstöðu fyrirtækisins og góðar horfur. Á Norðurlöndunum er það einungis norska orkufyrirtækið Statkraft sem nær hærri einkunn.
Eins og áður hefur komið fram áformar stjórn Landsvirkjunar að leggja til við aðalfund félagsins að greiddir verði 20 milljarðar kr. í arð til þjóðarinnar vegna rekstrarársins 2023. Arðgreiðslan á síðasta ári nam einnig um 20 milljörðum kr.
Ef allt gengur að óskum verður næsti áratugur mikið framkvæmdatímabil hjá Landsvirkjun.
Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda, rakti þær nýframkvæmdir sem fyrirtækið er að undirbúa.
Þar ber hæst vindorkuverið Búrfellslund, þar sem allt að 30 vindmyllur rísa nærri Vaðöldu. Vatnsaflsvirkjunin Hvammsvirkjun verður 8. virkjunin á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Þá verður ráðist í stækkun Sigöldu til aflaukningar á Þjórsársvæði og töluverða stækkun jarðhitavirkjunarinnar að Þeistareykjum.
Fundarstjóri ársfundarins 2024 var Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður Samskipta hjá Landsvirkjun.
Við hjá Landsvirkjun þökkum öllum þeim sem sáu sér fært að koma í Hörpu eða fylgjast með streymi okkar, mbl.is eða visir.is frá fundinum.
Sjáumst að ári!
Við hjá Landsvirkjun leitumst við að miðla fjölbreyttu, fróðlegu og skemmtilegu efni á samfélagsmiðlum okkar, þar á meðal myndum og efni af ársfundinum 2024.
Þú getur fylgt okkur á eftirfarandi miðlum: