Aukinn arður til þjóðarinnar
Ákveðin tímamót urðu í rekstri Landsvirkjunar árið 2021, þegar skuldahlutföll urðu sambærileg við sömu mælikvarða hjá systurfyrirtækjunum á Norðurlöndum. Þetta þýðir að ekki þarf lengur að leggja höfuðáherslu á lækkun skulda og meira svigrúm er til þess að greiða arð til eiganda Landsvirkjunar, íslensku þjóðarinnar.
Þessum árangri ber að fagna, ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti í rekstrarumhverfi fyrirtækisins í byrjun veirufaraldursins á árinu 2020. Afar jákvæð þróun varð á rekstrinum á árinu 2021. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, hækkaði um 64% á milli ára. Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um rúm 23% frá fyrra ári og voru hærri en áður í sögu félagsins.
Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina Landsvirkjunar og fyrirtækisins sjálfs. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja breyttist ekki frá fyrra ári, en meðalverð til stórnotenda hækkaði um 55%. Hækkunina má einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál- og orkumörkuðum og þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin. Nú greiða þau sambærileg verð og þau greiða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætt afkoma Landsvirkjunar á árinu er því alfarið vegna aukinna tekna af sölu til stórnotenda.
Þótt efnahagslegur ávinningur sé mikilvægur er hann aðeins einn þáttur sjálfbærrar þróunar. Loftslags- og umhverfismál skipta einnig máli og loks er ekki síður mikilvægt að starfsemi Landsvirkjunar sé samfélaginu til heilla. Í því sambandi má nefna að á árinu var sett á laggirnar nýtt svið samfélags og umhverfis og drög lögð að nýrri samfélagsstefnu. Landsvirkjun er hluti af samfélaginu og kappkostað er að starfsemin sé í sátt við hagaðila fyrirtækisins.