Ársskýrsla 2021

Ávarp forstjóra

Árangur sem skiptir máli

Endurnýjanleg orka leikur lykilhlutverk í loftslagsmálum. Ekki þarf annað en líta til árangurs Landsvirkjunar í því að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar. Kolefnisspor fyrirtækisins var einungis 1,2 grömm af koldíoxíðígildum á kílóvattstund, sem er einstaklega lítið, jafnvel þegar borið er saman við það sem gengur og gerist í endurnýjanlegri orkuvinnslu í heiminum.

Þannig var svokölluð forðuð losun nærri 3,2 milljónir tonna af CO2-ígildum á árinu. Forðuð losun er sú losun sem komið er í veg fyrir þegar viðskiptavinir velja að kaupa raforku af okkur frekar en á meginlandi Evrópu, en þessi tala yrði um tvöfalt hærri ef miðað væri við heiminn allan.

Þar munar um minna. Orkuvinnsla Landsvirkjunar er einkar verðmætt framlag til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Og við ætlum að gera enn betur, því starfsemi Landsvirkjunar verður kolefnishlutlaus árið 2025, samkvæmt aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum. Því markmiði ætlum við að ná með því að koma í veg fyrir nýja losun, draga úr núverandi losun og grípa til mótvægisaðgerða.

Loftslagsmál eru orkumál. Í markmiðum þjóða heims um að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5°C miðað við upphaf iðbyltingarinnar felst óhjákvæmilega að auka þessa umhverfisvænu og endurnýjanlegu orkuvinnslu, á kostnað jarðefnaeldsneytis. Þar megum við Íslendingar ekki láta okkar eftir liggja.

Loftslagsmál eru óaðskiljanlegur þáttur í sjálfbærri þróun. Framtíðarsýn okkar er „sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku“ og hlutverk okkar er að „hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi“. Við viljum því taka þátt í að ýta heiminum í átt að aukinni sjálfbærni og viljum vanda okkur við að gera það á réttan hátt. Vonandi höfum við árangur sem erfiði í þeirri viðleitni okkar.