Yngsta stöðin í Laxá
Laxárstöð III er yngsta stöðin í Laxá og nýtir efri hluta fallsins við Brúar, neðst í Laxárdal. Stöðin er rennslisvirkjun eins og hinar stöðvarnar í Laxá, en það þýðir að þær nýta eðlilegt rennsli árinnar.
Í stöðinni er ein 14 megavatta vélasamstæða. Upphaflega var gert ráð fyrir tveimur 25 megavatta vélum, en eftir mótmæli Þingeyinga urðu lyktir þær að stöðin var vígð með einum hverfli í stað tveggja og frekari áform á svæðinu lögð til hliðar. Raforkuframleiðsla stöðvarinnar er 90 gígavattstundir á ári.
Laxárvirkjun, sem var í helmingaeigu ríkisins og Akureyrarbæjar, reisti Laxárstöðvarnar. Félagið rann inn í Landsvirkjun árið 1983 og hefur Landsvirkjun rekið stöðvarnar síðan.