Laxárstöð III

1973Vatnsaflsstöð

Laxárstöð III var gangsett í október 1973 og er staðsett í Laxárdal.

Yngsta stöðin í Laxá

Laxárstöð III er yngsta stöðin í Laxá og nýtir efri hluta fallsins við Brúar, neðst í Laxárdal. Stöðin er rennslisvirkjun eins og hinar stöðvarnar í Laxá, en það þýðir að þær nýta eðlilegt rennsli árinnar.

Í stöðinni er ein 14 megavatta vélasamstæða. Upphaflega var gert ráð fyrir tveimur 25 megavatta vélum, en eftir mótmæli Þingeyinga urðu lyktir þær að stöðin var vígð með einum hverfli í stað tveggja og frekari áform á svæðinu lögð til hliðar. Raforkuframleiðsla stöðvarinnar er 90 gígavattstundir á ári.

Laxárvirkjun, sem var í helmingaeigu ríkisins og Akureyrarbæjar, reisti Laxárstöðvarnar. Félagið rann inn í Landsvirkjun árið 1983 og hefur Landsvirkjun rekið stöðvarnar síðan.

Helstu stærðir

  • Uppsett afl

    0MW
  • Orkuvinnslugeta

    0GWh /ár
  • Heildarfallhæð

    0m

Elsta stöðin í Laxá komin í hvíld

Laxárstöð I í vetrarbúningi
Laxárstöð I í vetrarbúningi

Laxárstöð I er elsta stöðin í Laxá, gangsett árið 1939. Hún hefur ekki verið notuð í raforkuframleiðslu síðan 2013, en þá var hún tekin úr rekstri þar sem fallpípa hafði látið á sjá vegna aldurs og ekki var talið arðbært að endurnýja hana.

Stöðin nýtti efri hluta fallsins við Brúar, rétt eins og Laxárstöð III. Frá stíflu efst í gljúfrunum var vatnið leitt í jarðgöngum og síðan í stokk að stöðvarhúsinu, alls um 670 metra leið. Fallhæðin var 39 metrar og uppsett afl stöðvarinnar 5 MW.

Vélarnar í Laxárstöð I
Vélarnar í Laxárstöð I

Þó að stöðin sé ekki í rekstri eru vélasamstæðurnar tvær enn í henni og þeim er vel við haldið. Sú fyrri var tekin í notkun við gangsetninguna árið 1939 en hin síðari bættist við árið 1944.