Vinna áfram saman að orku- og loftslagsmálum

18.03.2024Samfélag

Háskólinn í Reykjavík og Landsvirkjun hafa samið um samstarf á sviði orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni. Í samningnum felst að Landsvirkjun leggur fram 65 milljónir króna samtals á næstu 5 árum til að efla rannsóknir HR.

Samstarf frá 2019

Háskólinn í Reykjavík og Landsvirkjun hafa samið um samstarf á sviði orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni. Í samningnum felst að Landsvirkjun leggur fram 65 milljónir króna samtals á næstu 5 árum til að efla rannsóknir HR á þeim sviðum sem samningurinn tekur til, efla menntun um sjálfbærni og að útskrifa fleiri nemendur sem tengjast fræðasviðum innan þeirra rannsóknasetra sem fjármunirnir renna til.

Samstarf Landsvirkjunar og HR hófst með samningi sem tók til uppbyggingar námsbrautar í orkuverkfræði. Árið 2019 var svo samið að nýju til fimm ára og nú með það að markmiði að styðja við uppbyggingu Rannsóknarseturs um sjálfbærni. Þriðji samningurinn tekur gildi núna.

Rennur til tveggja rannsóknarsetra

Samningurinn núna felur í sér að styrkja kjarnastarfsemi Rannsóknarseturs um sjálfbæra þróun við HR og Rannsóknaseturs Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar HR. Þá munu HR og Landsvirkjun halda sameiginlega fyrirlestra sem tengjast viðfangsefnum í orku-, loftslags- og sjálfbærnimálum. Þá fær Landsvirkjun aðild að Icelandic Innovation Partners (IIP), sem er samstarf MI-háskólans, HR og valinna fyrirtækja á Íslandi, auk þess sem starfsmönnum Landsvirkjunar verður veitt leyfi frá hefðbundnum daglegum störfum til að sinna rannsóknum innan HR og sækja námskeið við HR.

HR hefur sérþekkingu á ýmsum fagsviðum sem tengjast vinnslu og nýtingu raforku, svo sem verkfræði, tæknifræði, aðgerðagreiningu, kostnaðarfræði, rekstri og áætlanagerð. Við lagadeild háskólans eru einnig kennd námskeið sem tengjast starfssviði Landsvirkjunar, til dæmis námskeiðin Alþjóðlegur og evrópskur orkuréttur, Íslenskur orkuréttur og Auðlindaréttur.

Endurnýjanleg orka undirstaða samfélagsins

Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkugjafa er undirstöðuþáttur í íslensku atvinnulífi og samfélagi og auðsynlegt að tryggja menntun og rannsóknir á Íslandi á þeim sviðum sem henni tengjast. Auk þess að efla getu og þekkingu á grunnþáttum raforkuvinnslu og áhrifum hennar á umhverfi og samfélag þarf að leita leiða til að mæta alþjóðlegum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar. Markmiðið er að halda stöðu Íslands sem leiðandi þjóðar í vinnslu endurnýjanlegra orkugjafa.