En hvernig hafa þessir samningar verið nýttir?
Á undanförnum tíu árum hafa komið þrjú þar sem Landsvirkjun hefur reynst nauðsynlegt að takmarka afhendingu á sveigjanlegri orku vegna þurrkatíðar. Þetta er ekki óeðlileg tíðni þurra vatnsára. Lauslega reiknað nema þessar skerðingar aðeins um 10% af þeirri orku sem unnt var að selja út frá því viðmiði að miða getuna við meðalrennsli frekar en minnsta þekkta rennsli.
Þessar aðstæður kallast ekki orkuskortur. Þetta er eðlileg virkni í rekstri kerfisins sem tryggir í raun raforkuöryggi á Íslandi. En hvað er þá orkuskortur? Orkuskortur er þegar takmarka þarf afhendingu á forgangsorku til almennings eða fyrirtækja, þ.e. þeirri orku sem við höfum lofað að afhenda hverju sinni.
Því væri skaðlegt að breyta umgjörð íslenska raforkuiðnaðarins með laga- eða reglugerðarbreytingum sem myndi hamla þessari virkni kerfisins. Það er mikilvægt að þekking og yfirsýn liggi að baki slíkum ákvörðunum. Ýmsar langlífar mýtur geta þó truflað ákvörðunarferlið.
Tökum dæmi:
Fullyrðing: Það er orkuskortur á yfirstandandi vetri.
Þetta er rangt!
Það er ekki orkuskortur. Landsvirkjun mun tryggja að allir samningar um afhendingu forgangsorku til stórnotenda og í heildsölu séu tryggðir. En það hefur verið lélegt vatnsár hingað til og Landsvirkjun þarf að nýta heimildir til að skerða afhendingu til viðskiptavina með samninga sem kveða á um slíkt, einmitt til að koma í veg fyrir orkuskort. Landsvirkjun vinnur náið með þessum viðskiptavinum, þeir þekkja samninga sína og eru meðvitaðir um hvað veldur því að það þurfi að takmarka orkuvinnslu frá kerfinu. Við gerð þessara samninga er ávallt farið mjög vel yfir þá aðferðafræði og forsendur sem stýra ákvörðunum um skerðingar, en auðvitað hafa þær áhrif á rekstur þessara viðskiptavina.
Fullyrðing: Íslenskur almenningur þarf að niðurgreiða raforku til stóriðju.
Þetta er rangt!
Hraðinn á uppbyggingu samtengds kerfis með stórum vatnsaflsvirkjunum hefði ekki verið gerlegur nema með samhliða uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Nú eru Íslendingar í mjög öfundsverðri stöðu, raforkuverð til almennings er lágt, orkuöryggi hefur verið tryggt hingað til, miklar tekjur skila sér inn í þjóðarbúið vegna sölu á raforku til stórnotenda og allt er þetta endurnýjanleg orka. Þar að auki er nýting uppsett afls til raforkuframleiðslu með því hæsta sem gerist í vatnsaflskerfum í heiminum. Frábær árangur.
Spurning: Er þá ekki allt í himnalagi?
Nei!
Því miður. Hér hafa stjórnvöld brugðist. Í öllum þróuðum hagkerfum setja stjórnvöld stefnuna í orkumálum og tryggja snurðulausa uppbyggingu orkuvinnslu svo samfélag og atvinnulíf þróist eðlilega. Hér hafa stjórnvöld frekar sett stein í götu eðlilegrar framþróunar en hitt. Jafnvel þótt það blasi við að orkuskortur geti orðið á næstu árum er ekkert að gert, eða að minnsta kosti allt of lítið, allt of seint.