Samstarf um nýsköpun skilar árangri

13.05.2024Samfélag

Ísland býr yfir mörgum tækifærum til þess að byggja upp sjálfbærara samfélag og þar leikur endurnýjanlega orkan okkar stórt hlutverk. Mikilvægt er að staldra við, líta okkur nær og átta okkur á þeim tækifærum sem leynast við túnfótinn. Grein eftir Dóru Björk Þrándardóttir.

Samstarf um nýsköpun skilar árangri

Eimur, Orkídea, Blámi og Eygló eru systurverkefni sem styðja við orkutengda nýsköpun á landsbyggðinni. Þau hafa sýnt og sannað að með því að nýta styrkleika hvers svæðis er unnt að styðja við staðbundna uppbyggingu og framþróun. Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og þessi systurverkefni á landsbyggðinni bjóða gestum og gangandi í Hafnartorg, Geirsgötu 17 í Reykjavík á miðvikudaginn 15.maí, kl. 15:15 til að fræðast nánar um starfið. Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarviku.

Landsvirkjun ákvað árið 2016 að leiða saman ólíka aðila á Norðurlandi eystra til að nýta jarðhitaauðlindir landshlutans betur. Úr varð stofnun Eims, með liðsinni Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Eimur hefur komið að margvíslegum verkefnum sem styðja við sjálfbærari nýtingu á auðlindum svæðisins með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Meginhlutverk Eims er að stuðla að bættri nýtingu auðlinda og svokallaðra hliðarstrauma frá núverandi rekstri, þ.e. þeirrar orku eða hráefna sem falla til við nýtingu jarðvarmans og annarra auðlinda á svæðinu.

Matvæli og orkuskipti á sjó

Að fenginni góðri reynslu af Eimi var fleiri verkefnum komið á laggirnar, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi. Orkídea stuðlar að þróun orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis. Þar tóku Landsvirkjun og ráðuneytið höndum saman með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Blámi er hins vegar afrakstur samstarfs okkar hjá Landsvirkjun, ráðuneytisins, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu og að Eygló koma, auk Landsvirkjunar og ráðuneytisins, Austurbrú, sveitarfélögin Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur.

Bæði Blámi og Eygló beita sér meðal annars fyrir orkuskiptum á sjó. Öll verkefnin eiga það sameiginlegt að styðja við sprotafyrirtæki á starfssvæðum sínum. Þau hafa sótt um og fengið erlenda styrki til að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi sína.

Lítum okkur nær

Ísland býr yfir mörgum tækifærum til þess að byggja upp sjálfbærara samfélag og þar leikur endurnýjanlega orkan okkar stórt hlutverk. Mikilvægt er að staldra við, líta okkur nær og átta okkur á þeim tækifærum sem leynast við túnfótinn. Samstarf ólíkra aðila getur verið lykill að góðum árangri, það sjáum við einmitt skýrt á systurverkefnunum þar sem starfsfólki þeirra, ásamt fjölbreyttum eigendahópi, tekst að ýta verkefnum áfram sem hefðu annars mögulega týnst í daglegu amstri.

Góðri hugmynd þarf að fylgja kraftur og þor til framkvæmda. Starfsfólk systurverkefnanna, sem nú er alls 14 manns, býr sannarlega yfir þessum eiginleikum og tekst að vinna markmiðum sínum brautargengi. Það á mikið lof skilið og ég hvet öll til að kynna sér verkefnin og viðfangsefni þeirra.

Það var mikið heillaspor fyrir Landsvirkjun að leggja grunninn að þessum verkefnum. Árangurinn sést t.d. á því að fyrir hverja krónu sem bakhjarlar verkefnanna setja í þau verða til tæpar þrjár krónur á starfssvæðum þeirra. Þessi árangur næst þó ekki á einni nóttu, en samstarf og langtímahugsun er lykillinn að því að leysa nýsköpunarkraftinn úr læðingi.

Verið velkomin í Hafnarhús á miðvikudaginn kl 15:15. Verkefnin er einnig hægt að kynna sér á vefsíðum þeirra:

Eimur

Orkídea

Blámi

Eygló

Dóra Björk er nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun