Samstarf um nýsköpun skilar árangri
Eimur, Orkídea, Blámi og Eygló eru systurverkefni sem styðja við orkutengda nýsköpun á landsbyggðinni. Þau hafa sýnt og sannað að með því að nýta styrkleika hvers svæðis er unnt að styðja við staðbundna uppbyggingu og framþróun. Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og þessi systurverkefni á landsbyggðinni bjóða gestum og gangandi í Hafnartorg, Geirsgötu 17 í Reykjavík á miðvikudaginn 15.maí, kl. 15:15 til að fræðast nánar um starfið. Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarviku.
Landsvirkjun ákvað árið 2016 að leiða saman ólíka aðila á Norðurlandi eystra til að nýta jarðhitaauðlindir landshlutans betur. Úr varð stofnun Eims, með liðsinni Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Eimur hefur komið að margvíslegum verkefnum sem styðja við sjálfbærari nýtingu á auðlindum svæðisins með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Meginhlutverk Eims er að stuðla að bættri nýtingu auðlinda og svokallaðra hliðarstrauma frá núverandi rekstri, þ.e. þeirrar orku eða hráefna sem falla til við nýtingu jarðvarmans og annarra auðlinda á svæðinu.