Samhljómur í spám um orkuþörf
Mikill samhljómur er í spám Landsvirkjunar og Landsnets um orkuþörf fram til ársins 2035. Við reiknum með að eftirspurnin vaxi um 6,5 TWst á þessum árum, en núverandi orkunotkun hérlendis nemur um 21 TWst á ári. Til lengri tíma en 2035 erum við sammála mati Samorku og Landsnets um orkuþörf þó hafa beri í huga að óvissa í orkuþörf er alltaf meiri langt fram í tímann.
Vandinn er sá, að á allra næstu árum mun framboð lítið aukast og orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja gæti verið í hættu á árunum 2024-2028. Að þeim tíma liðnum verður ný orkuvinnsla vonandi farin að skila sínu. Vindmyllur í Búrfellslundi taka vonandi til starfa undir lok árs 2026, Hvammsvirkjun árið 2028 og stækkun Þeistareykjastöðvar verður að veruleika á svipuðum tíma. Önnur orkufyrirtæki hljóta jafnframt að huga að aukinni vinnslu.
Við hjá Landsvirkjun höfum lengi varað við þessari stöðu. Við höfum sérstaklega áhyggjur af því að heimilum og smærri fyrirtækjum sé ekki tryggð nægjanleg orka þegar eftirspurnin vex jafn hratt og raun ber vitni. Skuldbindingar um orkusölu til nýrra stórnotenda, án þess að orkuöflun komi á móti, geta ógnað orkuöryggi almennings.