Kolefnisspor dregst saman um helming

30.08.2023Umhverfi

Hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds Landsvirkjunar fyrir árið 2023 hefur verið birt. Þar kemur m.a. fram að kolefnisspor Landsvirkjunar, þ.e.a.s. losun að frádreginni kolefnisbindingu, minnkaði um 54% á milli ára.

Losun á orkueiningu aldrei verið minni

Lesa hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds

Kolefnisspor Landsvirkjunar, þ.e.a.s. losun að frádreginni kolefnisbindingu, var um 2.800 tonn CO2-ígilda á fyrri árshelmingi og minnkaði um 54% á milli ára. Kolefnisspor á orkueiningu var 0,38 gCO2íg/kWst og dróst saman um 55% frá fyrra ári. Það hefur aldrei verið minna síðan byrjað var að færa loftslagsbókhald hjá fyrirtækinu.

Þessi árangur er í samræmi við loftslagsáætlun okkar og markmið um að starfsemi fyrirtækisins verði kolefnishlutlaus árið 2025.

Þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu frá starfsemi okkar ekki verið minni síðan fyrirtækið byrjaði að halda bókhald um losun. Hún dróst saman um 15% á milli ára og var 2,8 gCO2íg/kWst á fyrri árshelmingi 2023.

Það er undir því 4 gCO2íg/kWst losunarþaki sem er skilgreint í loftslags- og umhverfisstefnu okkar og með því minnsta sem þekkist í orkuvinnslu í heiminum. Til samanburðar getur raforkuvinnsla talist sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum í flokkunarreglugerð ESB ef losunin er undir 100 gCO2íg/kWst.

Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri loftslagsbókhalds okkar. Heildarlosun frá starfsemi fyrirtækisins á tímabilinu nam um 20.700 tonnum CO2-ígilda og dróst saman um 12% frá sama tímabili árið áður. Samdráttinn má að mestu rekja til mikils samdráttar í losun frá jarðvarma (-23%), sem helgast að mestu leyti af minni orkuvinnslu frá Kröflustöð.

Losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis minnkaði um 18% á milli ára. Við vinnum markvisst að því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreinorku á bifreiðum og tækjum í okkar eigu og stefnum á að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030.