Landsvirkjun einn helsti bakhjarl IGC
Landsvirkjun var einn helsti bakhjarl íslensku jarðhitaráðstefnunnar (Iceland Geothermal Conference, IGC) sem fór fram í Hörpu 28.-30. maí sl. Skráðir voru rúmlega 600 þátttakendur frá yfir 50 löndum. Ráðstefnan, sem haldin er af íslenska Orkuklasanum, er að festa sig í sessi sem ein stærsta alþjóðlega ráðstefna heims á sviði jarðvarmanýtingar. Hún er alla jafna haldin á 2-3 ára fresti frá árinu 2010 en var síðast árið 2018 þar sem World Geothermal Conference var haldin hér á landi 2021.
Rúmlega 30 starfsmenn frá starfsstöðvum okkar á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Mývatnssvæðinu tóku þátt í ráðstefnunni að þessu sinni. Þá skipulögðum við vettvangsferð að ráðstefnu lokinni í samstarfi við Orkuklasann.
Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastýra Orkuklasans hafði veg og vanda af ráðstefnuhaldinu en Orkuklasinn er samstarf fyrirtækja á sviði orkutengdrar starfsemi á Íslandi. Fulltrúar í fagnefnd við skipulagningu IGC voru Alma Stefánsdóttir (Landsvirkjun), Arna Pálsdóttir (OR), Birta Kristín Helgadóttir (Efla), Bjarni Gautason (ÍSOR), Carine Chatenay (Verkís), Friðrik Ómarsson (COWI), Hörður Harðarson (Arctic Green Energy), Katrín Ragnarsdóttir (COWI) og Vala Hjörleifsdóttir (HR).