Hæstiréttur dæmir gjaldskrá Landsnets ólöglega

05.06.2024Fyrirtækið

Hæstiréttur dæmir gjaldskrá Landsnets ólöglega

Lesa dóm Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í dag að Landsnet hafi ekki haft lagaheimild til þess að leggja svokallað innmötunargjald á orkufyrirtæki, þar á meðal Landsvirkjun. Landsvirkjun höfðaði málið gegn Landsneti og gegn Orkustofnun, sem hafði gefið samþykki sitt fyrir gjaldtökunni. Með dómi Hæstaréttar er þessu tveggja ára deilumáli lokið.

Forsaga málsins er sú að Landsnet tilkynnti fyrir töluvert löngu að fyrirtækið hygðist hefja þessa gjaldtöku og vísaði í kostnað við að færa orku inn á flutningskerfi sitt. Landsvirkjun mótmælti þessari einhliða gjaldtöku árum saman og taldi hana ekki standast lög. Gjaldskráin tók samt gildi 1. apríl 2022.

Öll dómstig á einu máli

Dómar féllu Landsvirkjun í hag bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir þar sem það væri fordæmisgefandi og komst að sömu niðurstöðu og fyrri dómstig.

Í dóminum var m.a. bent á að innmötunargjaldið væri ekki hefðbundið þjónustugjald heldur gjald sérstaks eðlis sem væri ætlað að standa undir fleiri atriðum en þjónustu. Ekki yrði litið framhjá því að með breytingum á raforkulögum árið 2011 hefði verið fellt brott ákvæði þar sem vísað hefði verið til innmötunargjalds. Eftir gildistöku laganna væri því ekki lengur mælt fyrir um álagningu slíks gjalds í raforkulögum.

Kostnaður endurgreiddur

Þegar niðurstaða héraðsdóms lá fyrir færði Landsnet innheimtu gjaldsins aftur í fyrra horf, þ.e. sem hluta af flutnings- og dreifikostnaði. Á þeim tíma sem innmötunargjald var hluti af gjaldskrá Landsnets rukkaði Landsvirkjun viðskiptavini sína á heildsölumarkaði og stórnotendur um innmötunargjald – en þó náðist ekki að endurheimta að fullu þann kostnað sem fyrirtækið varð fyrir vegna þess hvernig gjaldskráin var uppsett. Nú þegar staðfesting Hæstaréttar á niðurstöðunni liggur fyrir mun Landsnet þurfa að endurgreiða þennan kostnað til raforkuframleiðendanna. Við munum því endurgreiða viðskiptavinum okkar þann kostnað sem þeir urðu fyrir á tímabilinu og almennir neytendur sem og stórnotendur vera jafn settir og þeir voru fyrir setningu innmötunargjaldsins.

Við hjá orkufyrirtæki þjóðarinnar fögnum því að þetta mál skuli nú endanlega til lykta leitt. Innmötunargjaldið sem lagt var á ólöglega nam háum fjárhæðum. Á þeim 18 mánuðum sem gjaldið var við lýði greiddi Landsvirkjun 2,4 milljarða kr. í þetta ólöglega gjald.

Landsvirkjun mun hér eftir sem hingað til leitast við að hámarka afrakstur þeirra orkuauðlinda sem fyrirtækinu er treyst fyrir af eigendum þess, íslensku þjóðinni. Arðgreiðsla til ríkissjóðs vegna rekstrar sl. árs nam 30 milljörðum króna.