Breytt söluferli raforku á heildsölumarkaði

21.10.2022Viðskipti

Landsvirkjun hefur ákveðið að breyta söluferli grunnorku á heildsölumarkaði á þann hátt, að hægt verði að senda inn kauptilboð í árslanga samninga til afhendingar á árunum 2023 til 2027. Þetta nýja fyrirkomulag mun gefa upplýsingar um eftirspurn og verðmat aðila á markaði nokkur ár fram í tímann, auka virkni raforkumarkaðar og verða mikilvægt innlegg til þróunar markaðsfyrirkomulags, orkuöryggis og orkuverðs.

Orkuframboð í raforkukerfinu verður takmarkandi þáttur á næstu árum. Núverandi fyrirkomulag raforkusölu á heildsölumarkaði gefur takmarkaðar upplýsingar um eftirspurn til lengri tíma, sem bæði dregur úr getu Landsvirkjunar til að hámarka afrakstur af auðlindinni og eykur sóun í kerfinu. Frá upphafi markaðsvæðingar raforkuviðskipta árið 2005 hefur Landsvirkjun boðið sölufyrirtækjum að kaupa raforku ætlaða heimilum og smærri fyrirtækjum. Fyrirkomulag sölunnar hefur þróast í takt við þarfir viðskiptavina og stöðu raforkukerfisins. Markverðar breytingar hafa orðið á þróun eftirspurnar og framboðs á undanförnum misserum sem Landsvirkjun telur mikilvægt að bregðast við og kynnir því breytt sölufyrirkomulag grunnorku til lengri tíma.

Markaðsverð út frá samþykktum tilboðum

Landsneti og sölufyrirtækjum sem eiga í heildsöluviðskiptum við Landsvirkjun verður boðin þátttaka í söluferlinu. Þeim verður gefinn kostur á að senda inn kauptilboð í árslanga grunnorkusamninga til afhendingar á árunum 2023 til 2027. Selt magn og markaðsverð skilgreinist í skurðpunkti kaup- og sölutilboða. Að því búnu er hægt að ganga til samninga um grunnorkusamninga á markaðsverði út frá samþykktum tilboðum.

Einstök kauptilboð eru ónafngreind og til að tryggja það hefur Landsvirkjun falið fyrirtækinu Vonarskarði að annast söluferlið. Þá mun Vonarskarð reikna út selt magn, söluverð og merkja samþykkt tilboð samkvæmt skilmálum söluferlisins.

Tilboðum skal skilað fyrir kl. 10 föstudaginn 28. október. Endanleg niðurstaða söluferlisins verður birt opinberlega 2. nóvember næstkomandi.