Áhrif Hálslóns á gróðurfar eru einkum óbein

02.05.2024Umhverfi

Breytingar hafa orðið á gróðurfari í Kringilsárrana, á Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði frá 2006, en þær eru mismunandi milli svæða. Ekki er að finna bein áhrif Hálslóns á gróðurfar svæðanna, að því er fram kemur í viðamikilli rannsókn. Niðurstöður hennar liggja nú fyrir í ritrýndri grein.

Áhrif Hálslóns á gróðurfar eru einkum óbein

Breytingar hafa orðið á gróðurfari í Kringilsárrana, á Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði frá 2006, en þær eru mismunandi milli svæða. Ekki er að finna bein áhrif Hálslóns á gróðurfar svæðanna, að því er fram kemur í viðamikilli rannsókn. Niðurstöður hennar liggja nú fyrir í ritrýndri grein.

Landsvirkjun hefur vaktað möguleg áhrif Hálslóns á gróðurfar í nágrenni þess og hefur Náttúrustofa Austurlands sinnt rannsóknunum. Markaðir voru ákveðnir gróðurreitir á svæðunum þremur, Kringilsárrana, Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði og fylgst með þeim um árabil. Voru þeir síðast mældir á árunum 2015-2017 og gefnar út skýrslur í kjölfarið.

Fleiri gæsir og hreindýr auka álag

Þótt bein áhrif Hálslóns hafi ekki komið fram í rannsókninni er þó hægt að greina óbein áhrif, sem felast í tapi á beitar- og varplandi sem fór undir lónið og sú landnýting færðist þar með yfir á önnur svæði. Jafnframt hefur heiðargæsum og hreindýrum fjölgað á svæðinu. Það hefur aukið álag á gróður og í því samhengi komu helstu gróðurbreytingarnar fram.

Nýverið kom út ritrýnd grein þar sem teknar voru saman helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Titill greinarinnar er "Decadal vegetation changes in a subarctic-alpine ecosystem: Can effects of Iceland's largest hydropower reservoir, climate change, and herbivory be detected?" og hún birtist í alþjóðlega ritinu Applied Vegetation Science.

Greinin er aðgengileg hér og einnig er góð samantekt á vef Náttúrustofu Austurlands.