72 milljónir til 41 styrkþega
Í 17. úthlutun Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar skipti 41 styrkþegi með sér 72 milljónum króna. Styrkþegar eru nemendur í framhaldsnámi á háskólastigi, með skilgreind rannsóknarverkefni.
Að vanda voru þau hin fjölbreytilegustu en öll í samræmi við tilgang Orkurannsóknasjóðs, sem er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsfólk til að velja sér viðfangsefni á þeim sviðum, gera fjárframlög orkufyrirtækis þjóðarinnar til rannsókna bæði skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem styrktar eru aðstoði við að ná fram framtíðarsýn okkar, sem er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku.
Að meðtöldum styrkveitingum þessa árs hefur sjóðurinn veitt 413 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins á þessum árum numið 988 milljónum kr.