Spurt og svarað um Búrfellslund

Framkvæmdir og mannvirki

  • Hámarkshæð vindmyllanna er 150 m. Mun hærri vindmyllur bjóðast á markaði í dag, en ákveðið var að viðhalda þessari hámarkshæð til að draga úr sjónrænum áhrifum vindorkuversins. Auk þess er afar vindasamt á svæðinu, sem eykur álag á stærri vindmyllur.

  • Gert er ráð fyrir að stærð plana fyrir hverja vindmyllu sé um 1.500 fermetrar. Stærðin ræðst helst af krönum sem þurfa að athafna sig þegar vindmyllurnar eru reistar.

Leyfismál

  • Til að hefja byggingu vindorkuvers þarf margs konar leyfi. Í tilfelli Búrfellslundar er verið að veita þau í fyrsta sinn fyrir vindorkuver. Hér er listi yfir leyfin og hvar þau standa núna, en auk þeirra þarf að sækja um ýmis leyfi á sjálfum framkvæmdatímanum, t.d. starfsleyfi vinnubúða, leyfi til rekstrar mötuneytis o.fl.:

    • Alþingi hefur samþykkt virkjunina í nýtingarflokk rammaáætlunar og mat á umhverfisáhrifum hennar liggur fyrir.
    • Aðalskipulag og deiliskipulag eru frágengin og virkjunin er í samræmi við landsskipulagsstefnu.
    • Virkjunarleyfi frá Orkustofnun hefur verið útgefið
    • Samið hefur verið við ríkið um lands- og nýtingarréttindi á framkvæmdasvæði
    • Framkvæmdaleyfi þarf fyrir virkjuninni sem sótt verður um til sveitarfélags

Endurhönnun og ný útfærsla

  • Búrfellslundur hefur nú verið endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við eldri útfærslu í umhverfismati og 3. áfanga Rammaáætlunar.
  • Við endurhönnunina var lögð áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif Búrfellslundar og hefur ný útfærsla í för með sér talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum. Afmarkað hefur verið nýtt og minna svæði fyrir vindlundinn sem er staðsett enn nær núverandi orkumannvirkjum en áður. Umrætt svæði er innan þess rannsóknarsvæðis sem rannsakað var í mati á umhverfisáhrifum en staðsetning vindmylla er þó önnur. Með endurhönnuninni hefur umfang Búrfellslundar verið minnkað í afli úr 200 MW í 120 MW. Ennfremur hefur fjöldi vindmylla verið minnkaður úr 67 í allt að 30.
  • Endurhannaður Búrfellslundur er ekki sýnilegur frá Stöng eða Gjánni og með því að staðsetja vindmyllurnar norðan við Sprengisandsleið (F26) og Landveg skerðist ekki útsýni að Heklu. Ný tillaga er ekki sýnileg frá bílastæðinu við Háafoss eins og áður var og er lítt sjáanleg frá gatnamótum Landvegar og Landmannaleiðar.
  • Mati á umhverfisáhrifum lauk í desember 2016.

Ný útfærsla á Búrfellslundi