Spurt og svarað um Búrfellslund
Framkvæmdir og mannvirki
Hámarkshæð vindmyllanna er 150 m. Mun hærri vindmyllur bjóðast á markaði í dag, en ákveðið var að viðhalda þessari hámarkshæð til að draga úr sjónrænum áhrifum vindorkuversins. Auk þess er afar vindasamt á svæðinu, sem eykur álag á stærri vindmyllur.
Gert er ráð fyrir að stærð plana fyrir hverja vindmyllu sé um 1.500 fermetrar. Stærðin ræðst helst af krönum sem þurfa að athafna sig þegar vindmyllurnar eru reistar.
Leyfismál
Til að hefja byggingu vindorkuvers þarf margs konar leyfi. Í tilfelli Búrfellslundar var verið að veita þau í fyrsta sinn fyrir vindorkuver. Hér er listi yfir leyfin sem öll eru komin í hús, en auk þeirra þarf að sækja um ýmis leyfi á sjálfum framkvæmdatímanum, t.d. starfsleyfi vinnubúða, leyfi til rekstrar mötuneytis o.fl.:
- Júní 2022 - Búrfellslundur var samþykktur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.
- Apríl 2024 - Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti tillögu að deiliskipulagi fyrir allt að 120 MW vindorkuver við Vaðöldu.
- Júlí 2024 - Samið við Landsnet um að tengja vindorkuverið inn á raforkuflutningskerfið.
- Ágúst 2024 - Orkustofnun veitti virkjunarleyfi.
- Ágúst 2024 - Landsvirkjun samdi við íslenska ríkið um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar.
- September 2024 - Sveitarstjórn Rangárþings ytra veitti framkvæmdaleyfi.