Spurt og svarað um Búrfellslund

Almennt um Búrfellslund

  • Vindorkuverið rís sunnan við Sultartangastíflu á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, stærsta athafnasvæði Landsvirkjunar. Það afmarkast af Þjórsá til vesturs og norðurs og Sprengisandsleið, fjallvegi nr. F26, til suðurs og austurs.

    Heildar stærð framkvæmdasvæðisins er rúmlega 17 km². Röskun innan framkvæmdasvæðisins verður haldið í lágmarki eins og kostur er.

  • Þjórsár- Tungnaársvæðið er stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar nú þegar og ýmsir nauðsynlegir innviðir og orkumannvirki á svæðinu, t.d. er hægur vandi að tengjast dreifikerfi raforku. Þarna blæs líka hraustlega og rekstur tilraunavindmyllanna okkar á Hafinu hefur sýnt að nýting á vindmyllunum verður með besta móti.

    Áralangar rannsóknir á farleiðum fugla hafa enn fremur sýnt fram á að fuglalíf er með minnsta móti á því svæði þar sem vindorkuverið rís og að þar fara engar sjaldgæfar tegundir um.

  • Vindmyllurnar verða 28, frá þýska vindmylluframleiðandanum Enercon. Enercon hefur reynslu af uppbyggingu og rekstri vindmylla hér á landi því fyrirtækið framleiddi vindmyllurnar sem Landsvirkjun hefur rekið í tilraunaskyni á Hafinu frá 2013. Auk þess eru þær vindmyllur sem settar voru upp við Þykkvabæ árið 2023 frá Enercon komnar.

  • Orkan frá vindorkuverinu nýtist til að bregðast við vaxandi orkuþörf samfélagsins, innlendum orkuskiptum, framþróun núverandi viðskiptavina og nýjum tækifæri í stafrænni vegferð, nýsköpun og fjölnýtingu. Landsvirkjun hefur ákveðið að forgangsraða orkusölu með þeim hætti, enda eftirspurnin meiri en framboðið. Til að mæta aukinni raforkuþörf þurfum við að vinna meiri græna orku.

  • Gert er ráð fyrir að ná 43% nýtni úr þessu 120 MW vindorkuveri og þannig nái það að vinna rúmlega 440 GW stundir rafmagns á ári hverju. Sú orkuvinnslugeta er sambærileg við Vatnsfellsstöð (450 GWst) og fer nærri því að vera jafn mikil og í Kröflustöð (465 GWst).

  • Vindmyllurnar sjálfar kosta um 20 milljarða króna, sjá nánar hér.

    Við höfum hins vegar ekki gefið út endanlega kostnaðaráætlun og munum ekki gera, enda starfar Landsvirkjun á samkeppnismarkaði.

  • Vindmyllur virka þannig að vindur snýr spöðum þeirra og spaðarnir snúa skafti í snúningsás myllunnar. Snúningsásinn er tengdur við rafal. Hann snýst og við það framleiðir hann rafmagn. Þarna eru í raun sömu öfl að verki og réðu gömlu góðu ljósunum sem algengust voru á reiðhjólum hér áður fyrr; þar lagðist rafall (dynamó) upp að dekki, hreyfing þess sneri honum og við það varð til rafmagn fyrir peruna í luktinni.

    Á svæðinu þar sem vindorkuverið rís er hægt að ganga að kröftugum vindi vísum nær allt árið. Vindstyrkur þarf að vera a.m.k. 4-5 metrar á sekúndu til að knýja spaða vindmyllanna en fari styrkurinn yfir 25 metra á sekúndu slökkva vindmyllurnar sjálfkrafa á sér til að forðast tjón.

    Reynsla okkar af rekstri tveggja vindmylla á Hafinu, skammt frá nýja vindorkuverinu, sýnir að nýtni er með allra besta móti. Algengt er að vindmyllur á landi nái eingöngu um 25% nýtni á ári en að fenginni reynslu frá Hafinu reiknum við með að Búrfellslundur skili 43% nýtni. Það er á pari við nýtni vindmylla á hafi, sem er þó miklu dýrari kostur í uppbyggingu.

  • Hver 150 metra há vindmylla stendur á um 3.500 m² plani. Stærð þess ræðst af því að stórir kranar eru notaðir þegar vindmyllurnar eru reistar og þeir þurfa svo stórt athafnasvæði. Sjálfar undirstöður hverrar vindmyllu eru um 500 m². Hafist verður handa við gerð undirstaða vorið 2025. Undirstöðurnar verða ekki sýnilegar þegar framkvæmdum er að fullu lokið, þá sjást eingöngu turnarnir sjálfir og blöðin.

Almennt um vindmyllur

  • Við höfum rekið tvær vindmyllur á Hafinu frá ársbyrjun 2013. Sá rekstur hefur gefið góða raun og sannfært okkur um að hentugt sé að reisa fyrsta vindorkuver landsins þarna.

  • Við gerum ráð fyrir að líftími hverrar vindmyllu sé 30 ár. Þegar að förgun kemur verður farið að öllum lögum og reglum sem gilda um endurnýtingu og/eða förgun.

  • Núna er hægt að endurvinna allt að 95% af öllu efni í vindmyllum og unnið er hörðum höndum að því að leysa þau 5% sem út af standa. Stærsti vandinn hefur verið að endurvinna blöðin sjálf, sem oftast eru gerð úr trefjagleri eða trefjaplasti. Orkufyrirtækið Ørsted í Danmörku hefur mikla reynslu af rekstri vindmylla. Þar á bæ strengdu menn þess heit árið 2021 að senda engin blöð í landfyllingar heldur finna leiðir til að endurnota eða endurvinna þau. Nú hillir undir lausnir í endurvinnslu og þar til þær finnast mun Ørsted geyma þau blöð sem ekki er hægt að nýta á annan hátt.

    Danski vindmylluframleiðandinn Vestas, einn sá stærsti í heimi, kynnti í febrúar 2023 nýja aðferð til að endurvinna blöðin og bundnar eru vonir við að hún leysi vandann.

    Can Wind Turbines Be Recycled? | Ørsted

  • Árleg losun örplasts í umhverfið á Íslandi er talin vera um 450-1.000 tonn. Langstærsta uppspretta örplasts er slit á hjólbörðum bifreiða. Þá eiga málaðar merkingar á vegum sína sök, sem og flagnandi húsamálning og skipamálning. Einn fólksbíll losar árlega um 1,1-1,7 kg af örplasti út í umhverfið með sliti á hjólbörðum (m.v. 12.600 km akstur á ári).

    Þetta kemur fram í minnisblaði Eflu verkfræðistofu frá 2023 vegna áætlana um tvær vindmyllur við Lagarfoss, en svörin eru byggð á rannsóknum á örplasti í hafinu við Ísland og á upplýsingum frá Vatns- og orkustofnun Noregs.

    Í minnisblaðinu kemur fram að Vatns- og orkustofnun Noregs áætli að losun frá hverri vindmyllu sé um 0,15-0,2 kg/ári. Það sé m.a. byggt á reynslutölum. „Miðað við að tvær vindmyllur losi árlega samanlagt um 400 grömm á ári þá væri þetta um 1 gramm á dag sem færi út í umhverfið. Þetta eina gramm er að losna í mjög mikilli hæð og berst með veðri og vindum og dreifist því yfir afar stórt svæði. Það þynnist því fljótt og mikið út og styrkur örplastmengunarinnar hverfandi og vart greinanlegur. Örplast af völdum vindmyllanna væri því hverfandi í samanborið við örplast frá umferð [...], vegmerkingum og málningu sem veðrast og flagnar af skiltum og mannvirkjum á svæðinu“, segir í minnisblaðinu.

    Miðað við þessar tölur gætu 28 vindmyllur losað 5,6 kg af örplasti á hverju ári. Það er sambærileg losun og við slit hjólbarða í akstri 3-5 fólksbíla.

Framkvæmdir

  • Fyrri 14 vindmyllurnar verða reistar vorið og sumarið 2026 og gangsettar um haustið. Reiknað er með að vindorkuverið verði að fullu tilbúið og komið í rekstur fyrir lok ársins 2027. Áður en myllurnar sjálfar rísa þarf að leggja vegi innan framkvæmdasvæðisins og smíða undirstöður þeirra. Vegaframkvæmdir innan svæðisins hafa verið í gangi síðan haustið 2024. Smíði á undirstöðum og öðrum mannvirkjum innan framkvæmdasvæðisins hefst vorið 2025.

  • Landsvirkjun hefur ráðist í ýmiss konar innviðauppbyggingu vegna virkjanaframkvæmda allt frá stofnun orkufyrirtækis þjóðarinnar árið 1965. Flestar virkjanir fyrirtækisins hafa verið utan vegakerfis landsins þegar framkvæmdir við þær hafa hafist. Landsvirkjun hefur því þurft að leggja nýja aðkomuvegi. Auk þess höfum við tekið þátt í að styrkja þjóðvegi sem liggja að framkvæmdasvæðum enda hefðu þeir annars ekki þolað þá miklu þungaflutninga sem virkjanaframkvæmdir kalla tímabundið á.

    Við þurfum að leggja um 22 km af vegslóðum innan framkvæmdasvæðisins til að tryggja aðkomu að sérhverri vindmyllu. Þá eru hafnar viðræður við Vegagerðina um þörf á styrkingu vega vegna flutninga á tækjabúnaði fyrir vindmyllurnar. Í kjölfarið verður ákveðið hvernig skuli standa að varanlegum vegbótum eins og þurfa þykir sem og tímabundnari aðgerðum.

    Flutningar um þjóðvegi í tengslum við framkvæmdirnar verða gríðarmiklir. Vindmyllurnar verða 28 talsins og 150 metrar að hæð þegar spaðar eru í hæstu stöðu. Hlutir í hverja vindmyllu verða fluttir með allt að tíu flutningabílum, á sérútbúnum vögnum sem verða fluttir til landsins. Lengsti farmurinn verður 70 metra spaðar og fara þarf 84 ferðir með þá. Í heildina þarf yfir 250 ferðir til þess eins að koma vindmyllum inn á svæðið. Gert er ráð fyrir að vindmyllurnar verði fluttar inn á svæðið á árunum 2026 og 2027.

  • Á framkvæmdatíma gerum við ráð fyrir allt að 205 ársstörfum. Árið 2024 eru áætluð 15 ársstörf, árið 2025 verða þau 90 og árið 2026 eru áætluð 100 ársstörf. Þessu til viðbótar má gera ráð fyrir að það skapist ýmis afleidd störf í þjónustu við framkvæmdina.

    Landsvirkjun gerir ráð fyrir að á rekstrartíma starfi um 5-7 manns við viðhald og rekstur vindorkuversins. Í þessu sambandi er litið til reynslu af rekstri vindorkuvera á Norðurlöndunum.

    Samhliða uppbyggingu vindorkuversins við Vaðöldu hyggst Landsvirkjun reisa þjónustubyggingu fyrir vindorkuverið á Hellu.

Umhverfi

  • Matskýrsla um umhverfisáhrif vindorkuversins kom út í mars 2016. Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur í rannsóknarskyni og var markmiðið að kanna hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku á Íslandi. Þær eru á svipuðu svæði og væntanlegt vindorkuver. Niðurstöður út þessum rannsóknum sýna að aðstæður til virkjunar eru óvenju hagstæðar á þessu svæði.

    Fjölmargar rannsóknir og athuganir voru unnar sérstaklega til að styðja við vinnu við mat á umhverfisáhrifum, t.d. rannsóknir varðandi sjónræn áhrif, landslagsgreining, hljóðstigsreikningar, jarðfræðirannsóknir, rannsón á gróðurfar, rannsókn á áhrifum vindmylla á fuglalíf, ferðaþjónustu og íbúa, sem og fornleifaskráning.

    Vindorka er nýr orkukostur á Íslandi og mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar var það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Þess vegna ákváðum við að kynna verkefnið vel og umfram þær kröfur sem lög um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Það fól meðal annars í sér gerð rafrænnar matsskýrslu. Með rafrænni skýrslu er umhverfismatið sett fram með nýjum og nútímalegum hætti til að gera niðurstöður rannsókna aðgengilegri fyrir almenning og tæknin nýtt til að myndræn framsetning verði sem best.

    Við gerð frummatsskýrslu var haft samráð við Þjóðlendunefnd og forsætisráðuneytið haustið 2014 í tengslum við rannsókna- og nýtingarleyfi innan þjóðlendu. Einnig var samráð haft við sveitarfélögin á svæðinu í tengslum við skipulags- og leyfismál. Fundað var með fulltrúum Samgöngustofu og ISAVIA vegna ljósamerkinga vindmylla. Haft var samráð við Póst- og fjarskiptastofnun um hvort fyrirhugaðar vindmyllur kunni að hafa áhrif á föst fjarskiptamerki í nágrenni við fyrirhugaðan Búrfellslund. Einnig var samráð haft við Landsnet um tengingu fyrirhugaðs Búrfellslundar við flutningskerfi raforku.

    Á kynningartíma var frummatsskýrslan aðgengileg á heimasíðum auk þess sem hún lá frammi á skrifstofum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra og hjá Skipulagsstofnun í sex vikur. Rafræn matsskýrsla var einnig aðgengileg á tveimur sérútbúnum stöndum í Árnesi og í Miðjunni á Hellu.

    Haldin var kynning á frummatsskýrslu fyrir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og skipulagsnefnd Rangárþings ytra ásamt sveitarstjóra. Frummatsskýrslan var kynnt á þremur opnum íbúafundum, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, á Hellu og í Reykjavík. Þá voru stakir kynningarfundir fyrir Ferðamálastofu, forsætisráðuneyti og Landvernd.

    Fjöldi umsagna og ábendinga komu fram og nýttust vel við þróun verkefnisins.

  • Stærsti hluti svæðisins þar sem vindorkuverið rís er lítt eða ógróið. Ekkert votlendi fer forgörðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands raskast engin náttúrufarslega verðmæt gróðurlendi vegna framkvæmdanna.

    Vindorkuverið er talið hafa lítil áhrif á fuglalíf. Þó mun uppbygging þess hafa neikvæð áhrif á varpfugla innan svæðis og einnig á farleiðir fugla og þar með er hætta á að fuglar fljúgi á vindmyllur. Í ljósi niðurstaðna ítarlegra rannsókna eru áhrif á fugla þó talin óveruleg. Rétt er að benda á að frá því að umhverfismatið var unnið hefur vindmyllum verið fækkað úr 67 í 28, svæðið undir þær minnkað verulega og þær rísa nú á því svæði þar sem áhrif á fugla mældust allra minnst.

    Grágæs, fálki og hrafn verpa innan eða í næsta nágrenni rannsóknarsvæðisins. Engin þessara tegunda er talin verða fyrir teljanlegum skakkaföllum vegna vindmyllanna. Þéttleiki mófugla innan rannsóknarsvæðisins er mjög lítill og tegundir sem fundust við rannsóknir allar algengar og stofnar þeirra stórir, hvort sem miðað er við á héraðs- eða landsvísu. Möguleg fælingaráhrif og búsvæðamissir varpfugla vegna vindmylla yrðu því líklega mjög lítil. Eitthvað verður um að varpfuglar fljúgi á vindmyllur, en vegna lítils þéttleika fuglanna á þessu svæði er ekki talið að þessi áflug verði tíð. Á heildina litið er talið að vindorkuverið hafi óveruleg áhrif á stofna varpfugla á héraðs- eða landsvísu.