Umhverfi og samfélag

Mótvægisaðgerðir og vöktun

Á undirbúningstíma Búrfellslundar hefur gefist tækifæri til að vanda hönnun og mæta þeim ábendingum sem hafa komið fram í leyfis- og skipulagsferli og almennu samráði við hagaðila.

Mat á umhverfisáhrifum

Mati á umhverfisáhrifum Búrfellslundar lauk í desember 2016, en verkfræðistofan Mannvit vann það fyrir Landsvirkjun. Í matsskýrslu er fjallað um möguleg umhverfisáhrif allt að 200 MW vindlundar sem felur í sér uppbyggingu 58-67 vindmylla sem yrðu að hámarki 150 m háar. Fjallað er um staðsetningu vindlundar og kosti hennar með tilliti til innviða og vindafars. Rætt er um tengsl framkvæmdanna við skipulag og vernd á svæðinu, þ.m.t. landsskipulag og aðal- og deiliskipulagsáætlanir.

Eftirfarandi umhverfisþættir voru til skoðunar: Ásýnd, landslag, hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fuglar, samfélag (sveitarfélög, nærsamfélag og ferðaþjónusta og ferðafólk) og fornleifar.

Áhrif á hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fugla og fornleifar voru metin óveruleg. Áhrif á íbúa, ferðaþjónustu og ferðamenn voru metin nokkuð neikvæð en nokkuð jákvæð á sveitarfélög. Áhrif á landslag og ásýnd fengu mismunandi einkunnir, allt frá því að vera talin „engin“ og upp í „verulega neikvæð“. Áhrif vegna ásýndar eru mismunandi eftir fjarlægð, staðsetningu og legu í landslagi.

Tillögur að afmörkun Búrfellslundar mótuðust í gegnum matsferlið með það að markmiði að koma til móts við ábendingar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Drög að vöktunaráætlun fyrir Búrfellslund eru birt í skýrslunni og er þar gert ráð fyrir vöktun á nokkrum umhverfisþáttum, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.

Matsskýrsla liggur fyrir, ásamt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vindlundarins. Matsskýrslan sýnir eldri útfærslu Búrfellslundar en ekki þá nýju. Staðsetning og uppröðun vindmylla hefur breyst með endurhönnuninni, en er áfram innan rannsóknarsvæðis. Unnin var sérstök rafræn matsskýrsla vegna Búrfellslundar og vann hún til tvennra verðlauna á Digital Communication Awards.