Ársskýrsla 2020

Sjálfbærniskýrsla

Sjálfbærni í starfseminni

Sem stærsti vinnsluaðili raforku á Íslandi berum við ábyrgð. Ábyrgð fyrirtækisins hvað varðar sjálfbærni snýr meðal annars að því að fara vel með auðlindir og umhverfi, stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins og skapa arð.

Við erum sífellt að leita nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi Landsvirkjunar. Við viljum að fyrirtækið láti gott af sér leiða og starfi í jafnvægi við efnahag, umhverfi og samfélag og eigum í opnum samskiptum við hagaðila okkar.

Sjálfbærniskýrsla (GRI)

Hlekkur á sjálfbærniskýrslu (GRI)

Þetta er í annað skipti sem Landsvirkjun gefur út sjálfbærniskýrslu í samræmi við alþjóðastaðalinn GRI. Skýrslan er einn þáttur í árlegri heildstæðri upplýsingagjöf fyrirtækisins samhliða ársreikningi og loftslagsbókhaldi. Gerð eru skil á helstu upplýsingum og frammistöðu í málefnaflokkum sem snúa að sjálfbærni og samfélagsábyrgð fyrirtækisins.

Áherslur

Á tímabilinu 2019-2020 var haft viðamikið samráð við hagaðila Landsvirkjunar. Tilgangur þess var að heyra hvaða málefnaflokka þeir telja

að fyrirtækið skuli leggja áherslu á í stefnu sinni og upplýsingagjöf. Samráðið átti sér stað með viðhorfskönnunum og viðtölum. Með hliðsjón af niðurstöðum úr forgangsröðun þeirra á málefnum, sem og endurgjöf í opnum svörum, er nú sérstaklega horft til eftirfarandi efnisflokka varðandi stefnumótun, markmiðasetningu og miðlun upplýsinga.

Loftslagsaðgerðir

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Landsvirkjunar dróst saman um 8% á árinu 2020 miðað við 2019 og er það í takt við skýra áætlun okkar í loftslagsmálum um að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2025.

Til að ná markmiði um kolefnishlutleysi höfum við gert aðgerðaáætlun sem byggir á kortlagninu kolefnisspors fyrirtækisins síðustu ár. Aðgerðaáætlunin felur í sér að fyrirbyggja frekari losun, finna leiðir til að draga úr losun og að auka kolefnisbindingu.

Orkuvinnsla í sátt við náttúru

Við nýtum endurnýjanlega orkugjafa, vatn, jarðvarma og vind, með sjálfbærum hætti. Það þýðir að við göngum ekki hraðar á auðlindirnar en þær endurnýja sig og vinnum stöðugt að því að bæta nýtingu þeirra og koma í veg fyrir sóun. Áhersla er lögð á að þekkja umhversáhrif starfseminnar, að draga úr þeim og koma í veg fyrir umhversatvik.

Upplýsingar um áhrif orkuvinnslunnar á umhverfi, aðgerðir fyrirtækisins í umhverfismálum og tölulegar upplýsingar má finna í sjálfbærniskýrslunni og loftslagsbókhaldi.

Bætt nýting auðlinda

Við stundum umfangsmiklar rannsóknir og vöktun á þeim auðlindum sem við nýtum til orkuvinnslu. Við mælum meðal annars afkomu jökla, rennsli og hitastig áa, vatnshæð og rými lóna ásamt því að rannsaka veðurfar og landbreytingar.

Við fylgjumst með heildarástandi jarðhitasvæðanna með sérstöku jarðhitalíkani fyrir hvert starfssvæði. Þá mælum við og vöktum jarðhitageyminn, fylgjumst með grunn vatnsstraumum og efnainnihaldi grunnvatns og mælum losun á gasi út í andrúmsloftið.

Þetta, ásamt fleiri þáttum, gerir okkur kleift að sjá inn í framtíðina og ná fram sem bestri nýtingu auðlindanna með sjálfbærni að leiðarljósi.

Öryggi og vellíðan starfsfólks

Árið 2020 hlúðum við að heilsu fólksins okkar í því ástandi sem fylgdi heimsfaraldri COVID­-19. Gerðar voru tvær kannanir, þar sem meðal annars var spurt um andlega líðan og samskipti við samstarfsfólk. Niðurstöðurnar voru mikilvægar til að sjá hvernig við gætum stutt betur við fólkið okkar á þessum undarlegu tímum.

Þjálfun í öryggismálum fer reglubundið fram á öllum starfssvæðum okkar. Má þar nefna þjálfun í skyndihjálp, eldvörnum, fallvörnum og fleira. Gildi slíkrar þjálfunar hefur marg­sannað sig og hjálpað fólki að forða slysum og bregðast rétt við í erfiðum aðstæðum.

Við vinnum eftir öryggis, heilsu og vinnuverndarstefnu en stefnan er nú í endurskoðun og bætt verður við árangursmælikvaraða. Á árinu voru engin vinnutengd sjúkdómstilfelli tilkynnt en eitt vinnuslys leiddi til fjarveru frá vinnu.

Jafnréttismál

Sjá nánar um jafnréttismál

Stefna okkar er að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsfólk njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig fer fyrirtækið ekki aðeins að lögum heldur nýtir jafnframt mannauð sinn á sem árangursríkastan hátt.

Við vinnum eftir aðgerðaáætlun í jafnréttismálum. Í henni er meðal annars sett fram markmið um að fyrir lok árs 2021 verði hlutfall kvenstjórnenda hjá fyrirtækinu hærra en 40%. Í lok árs 2020 var hlutfall kvenna í stjórnendastöðum alls 34% og 25% í framkvæmdastjórn.

Við erum með BSI­-vottað jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Viðhaldsvottun var gerð á árinu sem staðfesti að kerfið okkar væri virkt og hannað til þess að jafnréttis væri gætt við ákvörðun launa. Árið 2020 hlutum við einnig gullmerki jafnlaunaúttektar PwC, sjötta árið í röð.

Samvinna með nærsamfélögum

Árlega gerum við samskiptaáætlun fyrir hvert starfssvæði fyrir sig með tilliti til viðkomandi reksturs. Þetta er gert til að tryggja reglubundin samskipti og virka upplýsingagjöf. Í framkvæmdaverkefnum fer umfang samskiptaáætlana eftir stærð verkefna og þær geta því orðið viðamiklar. Ávallt er leitast við að tryggja að allar raddir eigi greiðan aðgang að okkur.

Virk samskipti eiga sér einnig stað á vettvangi tveggja sjálfbærniverkefna í tengslum við starfsemi okkar á Austurlandi og Norðausturlandi. Verkefnin eru unnin í samstarfi við hagaðila okkar og er markmið þeirra að fylgjast með áhrifum af starfsemi Landsvirkjunar og tengdum rekstri á samfélag, umhverfi og efnahag á svæðunum.

Ábyrgir starfshættir

Starfsfólk okkar hefur fengið fræðslu um siðareglur Landsvirkjunar og inni­hald laga um vernd uppljóstrara og fræðslu um viðbragðsáætlun fyrirtækisins og varnir gegn ámælisverðri háttsemi.

Engin spillingaratvik voru tilkynnt fyrirtækinu á árinu né voru nein mál um spillingu til með­ ferðar hjá Landsvirkjun. Þá bárust engar kvartanir vegna brota á persónuvernd viðskiptavina eða starfsfólks.

Sköpun efnahagslegra verðmæta

Fjölbreyttar atvinnugreinar nýta orku frá Landsvirkjun til verðmætasköpunar. Efnahagsleg áhrif af starfsemi fyrirtækisins birtast því meðal annars í formi starfa og tekna sem dreifast um allt land. Fjórðungur orkunnar sem við vinnum er nýttur á höfuðborgarsvæðinu og þrír fjórðu eru nýttir á landsbyggðinni. Áhrifa af starfseminni gætir meðal annars í útflutningstekjum, greiðslu launa, greiðslur til birgja, skattgreiðslum og fasteignagjöldum.

Landsvirkjun greiðir árlega arð af rekstri til eigenda fyrirtækisins, íslensku þjóðarinnar. Arðurinn er greiddur til ríkissjóðs Íslands.

Orkutengd nýsköpun

Sjá nánar um orkutengda nýsköpun

Nýsköpun í orkuiðnaði er sívaxandi hluti af starfsemi okkar. Fyrirtækið er leiðandi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun. Með meiri nýsköpun og aukinni verðmætasköpun nýtum við betur þær auðlindir sem okkur er trúað fyrir og leggjum grunn að sterkara og betra samfélagi.

Við eigum í margvíslegu samstarfi við ýmsa aðila svo sem frumkvöðla, háskóla, fyrirtæki og vísindamenn, innan jafnt sem utan landsteinanna. Auk þess stundum við fjölbreyttar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum og jarðfræði.

Einnig styrkjum við fjölmörg verkefni sem stuðla að nýsköpun í nærsamfélagi aflstöðva okkar. Má þar nefna samstarfsverkefnin Orkídeu á Suðurlandi, EIM á Norðurlandi og Bláma á Vestfjörðum. Við vinnum einnig með sprotafyrirtækjum en þar má nefna MýSilica og MýSköpun í Mývatnssveit. Þá eru fleiri verkefni þar sem við erum virkir þátttakendur í og fáum tækifæri til að skiptast á þekkingu og reynslu í orkutengdri nýsköpun.