Megum við hóa í þig?

Við hjá Landsvirkjun viljum komast í samband við minni fyrirtæki, einyrkja eða einstaklinga sem gætu tekið að sér ýmis tilfallandi verkefni með skömmum fyrirvara á athafnasvæði okkar á Suðurlandi.

Þú getur sent inn skráningu í gegnum formið hér fyrir neðan og nálgast allar upplýsingar um málið neðar á síðunni. Ef eitthvað er óljóst geturðu sent tölvupóst á innkaup@landsvirkjun.is.

Verktakar óskast í smærri verk

Nú er að hefjast tímabil mikilla framkvæmda á athafnasvæði Landsvirkjunar á Suðurlandi. Gerðir verða stórir samningar við verktaka vegna Hvammsvirkjunar og vindorkuvers við Vaðöldu. Öll slík stærri verk fara áfram í gegnum útboðsvef okkar. Reynslan hefur hins vegar kennt okkur að auk stærri og lengri samninga kalla slíkar framkvæmdir á fjölmörg smærri verk og nauðsynlegt að kalla til verktaka vegna þeirra.

Til að gera leit að slíkum smærri verktökum skilvirkari viljum við koma okkur upp lista yfir tiltæka verktaka á svæðinu. Við sjáum fyrir okkur að byrja alltaf á að fletta upp í þeim lista þegar þörf er á að kalla fleiri til verka. Nú óskum við eftir að allt áhugasamt fólk, sem hefur hug á að vera á listanum, sendi okkur upplýsingar um sig, sérsvið sitt og hvernig best sé að hafa samband.

Listi af þessu tagi er hvorki skuldbindandi fyrir okkur hjá Landsvirkjun né ykkur sem viljið vera þar á skrá. Þið getið skráð ykkur á hann hvenær sem er og út af honum aftur ef svo ber undir. Hann er eingöngu hugsaður til að veita gott yfirlit yfir hvaða sérhæfða starfsfólk gæti verið til taks á svæðinu hverju sinni.

Líklegt er að við köllum t.d. eftir fólki til að sinna:

  • Girðingavinnu
  • Uppgræðslu
  • Jarðvinnu
  • Ræstingum
  • Auk þess að kalla eftir rafvirkjum, pípurum, múrurum, smiðum og öðru fagmenntuðu iðnfólki í tilfallandi verkefni