Sjálfbærnimat Fljótsdalsstöðvar

Drög að matsskýrslu

Umsagnartímabil: 9. janúar - 10. mars 2025

Samtök um sjálfbæra vatnsorku

The Hydropower Sustainability Alliance (HSA) er alþjóðleg og óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun. Þar koma saman fulltrúar vatnsaflsgeirans, stjórnvalda, samfélags- og umhverfissamtaka og fjármálastofnana til þess að vinna að framgangi sjálfbærrar vinnslu vatnsafls.

HSA hefur umsjón með sjálfbærnistaðli vatnsaflsvirkjana (e. „Hydropower Sustainability Standard“ (HSS)), matsferli hans og vottun, með það að markmiði að auka sjálfbærni vatnsaflsvinnslu um allan heim. Með staðlinum stuðlar HSA að gagnsæi og bestu starfsvenjum orkufyrirtækjanna. Markmið HSS er að tryggja samfélagslega ábyrgð, umhverfislega sjálfbærni og hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri vatnsaflsvirkjana.

Staðall um sjálfbæra vatnsorku

The Hydropower Sustainability Standard (HSS) er alþjóðlega viðurkennt vottunarkerfi sem gerir kröfur um sjálfbærni á öllum stigum virðiskeðjunnar. Með því að nota HSS geta hagaðilar – allt frá hönnuðum og rekstraraðilum til fjárfesta og stjórnvalda – sýnt fram á skuldbindingu sína til sjálfbærni.

Með staðlinum eru 12 þættir umhverfis-, félags- og stjórnarhátta vatnsaflsstöðva metnir út frá tveimur gæðastigum; góðum starfsvenjum og bestu starfsvenjum. Til að tryggja gagnsæi og skýrleika í matsferlinu eru skilgreindir skýrir mælikvarðar á umfang og grundvallaratriði fyrir hvern þátt. Með því að styðjast við staðalinn geta eigendur og hagaðilar aukið sjálfbærni orkuvinnslunnar og samræmt hana bestu alþjóðlegu starfsháttum.

HSS mat á Fljótsdalsstöð

Teymi vottaðra og óháðra matsaðila framkvæmdi mat á Fljótsdalsstöð. Matsferlið felur í sér að safna hlutlægum gögnum til að meta sjálfbærniframmistöðu Landsvirkjunar við rekstur stöðvarinnar á heildstæðan hátt, samkvæmt kröfum HSS. Í vottunarferlinu fer fyrsta útgáfa matsskýrslunnar í 60 daga opið umsagnarferli. Það gefur öllum hagaðilum tækifæri til að koma með athugasemdir og endurgjöf um niðurstöður matsins. Umsagnartími vegna matsskýrslu Fljótsdalsstöðvar er frá 9. janúar 2025 til 10. mars 2025.