Við erum öll á raforkumarkaði
Við höfum lengi búið við árangursríkt viðskiptafyrirkomulag á raforkumarkaði. Við höfum náð að reka 100% endurnýjanlegt kerfi með hámarksnýtingu, orkuöryggi almennings hefur verið tryggt og raforkuverð verið samkeppnishæft.
Það er þó mikill ávinningur í að þróa viðskipti með raforku áfram. Slík þróun styður við möguleika kaupenda og seljenda til að eiga í viðskiptum og styrkir þar með samkeppni. Þróunin getur einnig leitt til enn betri nýtingar auðlindanna okkar. Verðmyndun verður skýrari og um leið fáum við aðgengi að upplýsingum um framboð og eftirspurn eftir raforku og hvert markaðsverð hennar er.
Við verðum að gæta þess vel að þróun raforkuviðskipta leiði ekki til þess að raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja verði ógnað. Raforkumarkaðir geta vissulega stutt við raforkuöryggi upp að vissu marki, en þeir tryggja það ekki. Við verðum að varast að glutra niður mörgum góðum ákvörðunum fyrri tíma sem byggja á eiginleikum íslenska kerfisins þar sem við höfum nýtt orkuauðlindirnar vatnsafl og jarðvarma.