Útflutningsbanni endanlega aflétt
Stjórn evrópskra samtaka útgefenda upprunaábyrgða, AIB, hefur ákveðið að aflétta endanlega útflutningsbanni á íslenskum upprunaábyrgðum sem staðfesta að raforka sé unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum.
AIB hefur aflétt endanlega útflutningsbanni á íslenskum upprunaábyrgðum sem staðfesta að raforka sé unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Stjórn evrópskra samtaka útgefenda upprunaábyrgða, AIB, hefur ákveðið að aflétta endanlega útflutningsbanni á íslenskum upprunaábyrgðum sem staðfesta að raforka sé unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum.
AIB setti útflutningsbannið á í maí sl. en mánuði síðar var því aflétt. Skilyrði þeirrar afléttingar var að Landsnet, sem gefur út ábyrgðirnar hér á landi, skilaði stöðumati fyrir 1. október sl. þar sem lagt væri mat á hugsanlega tvítalningu upprunaábyrgða og til hvaða aðgerða hefði verið gripið til að koma í veg fyrir slíkt.
Umhverfisstofnun Þýskalands fylgdi í kjölfar AIB og bannaði innflutning íslenskra upprunaábyrgða til landsins, en stofnunin aflétti því banni að fullu í júlí sl. og vísaði til þess að sýnt hefði verið fram á að íslenskir raforkuframleiðendur tvíteldu ekki grænan eiginleika orkuvinnslu sinnar.
Landsvirkjun mótmælti útflutningsbanninu frá upphafi og benti á að sala og markaðssetning fyrirtækisins á upprunaábyrgðum hefði ávallt verið í samræmi við reglur og bestu starfsvenjur.
Með ákvörðun stjórnar AIB í dag hefur öllum höftum á viðskipti með íslenskar upprunaábyrgðir verið aflétt.
Við fjölluðum nýlega um upprunaábyrgðir í Grænvarpinu, þar sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur sat fyrir svörum.