Skerðingum hætt í batnandi árferði

07.05.2024Orka

Skerðingum hætt í batnandi árferði

Skerðingar á afhendingu raforku til stórnotenda hafa nú verið afnumdar. Það er um 3-5 vikum fyrr en reiknað var með um miðjan sl. mánuð. Staða í miðlunarlónum Landsvirkjunar batnar nú nokkuð ört og mikill snjór á hálendinu gefur fyrirheit um gott innstreymi í lónin á næstu vikum.

Undanfarið hafa hlýindi skilað auknu innrennsli, t.d. á vatnasvæði Tungnaár á Suðurlandi. Niðurdrætti í Þórisvatni virðist lokið þetta vorið. Langtíma veðurspá fyrir Suðurland lofar hlýindum og þá tekur Þjórsá vonandi fljótt við sér.

Við Blöndulón hafa verið miklar leysingar að undanförnu og það rís hratt.

Hálslón við Kárahnjúka er önnur saga, þar hafa litlar breytingar orðið upp á síðkastið. Hins vegar er snjór mikill á Austurlandi og varfærnar spár okkar gera ráð fyrir auknu innrennsli þar á næstunni.

Gert er ráð fyrir að lofthiti á landinu verði um eða yfir meðallag næstu þrjár vikurnar. Gangi það eftir má búast við því að staða lónanna batni hratt.

Miklar skerðingar í vetur

Undir lok sl. árs var gripið til skerðinga á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Þessar skerðingar munu standa áfram, enda engin umframorka tiltæk þótt staðan fari batnandi.

Því næst var afhending skert til fjarvarmaveitna og stórnotenda, þ.e. Elkem, Norðuráls og Rio Tinto. Í febrúar var svo tilkynnt um skerðingar á norður- og austurhluta landsins en þær náðu til álvers Alcoa Fjarðaráls, kísilvers PCC Bakka og TDK aflþynnuverksmiðjunnar.

Þessum skerðingum er núna lokið.

Við þökkum viðskiptavinum okkar gott samstarf og þolinmæði við þær krefjandi aðstæður sem ríkt hafa í vatnsbúskapnum í vetur.