Bútum orkuskiptin niður
Orkuskiptin sem brenna á Íslendingum lúta fyrst og fremst að samgöngum, enda búum við svo vel að hafa fyrir löngu rafvætt heimili og fyrirtæki og varmaorku til húshitunar og annarra nota sækjum við víðast hvar í jarðvarma. Mikið hefur verið rætt um hversu mikla raforku þurfi fyrir orkuskipti samgangna. Sú þörf hefur verið metin um 16 TWst sem samsvarar tæplega allri núverandi raforkunotkun Íslands og fallast þá sumum hendur.
Í því tilliti er mikilvægt að hafa í huga að orkuskiptin munu eiga sér stað yfir nokkra áratugi. Mestur þungi þeirra kemur fram þegar orkuskiptalausnir verða fýsilegar í alþjóðaflugi enda er það stærsti notandi jarðefnaeldsneytis á Íslandi. Á því sviði er enn langt í land og um endanlega orkuþörf þess ríkir mikil óvissa. Orkuþörf orkuskipta Íslands í heild er því afturþung og óviss og ekki tímabært að taka ákvarðanir nú sem snúa að síðari hluta þeirrar vegferðar.
Ef litið er þess í stað til næstu 10-15 ára, t.d. til ársins 2035, er hægt að stilla upp sennilegri sviðsmynd varðandi framvindu orkuskipta miðað við stöðu tæknilausna, eftirspurn atvinnulífs og stuðning stjórnvalda. Þessi sviðsmynd byggir á fyrri greiningum sem hafa verið birtar opinberlega af öðrum (t.d. í nýlegri raforkuspá Landsnets) og endurspeglar einnig greiningar sérfræðinga Landsvirkjunar sem og samtöl okkar við tækniframleiðendur, atvinnulífið og ýmsa hagaðila.